Vakin og sofin yfir Sesam

Nýir eigendur tóku við Sesam brauðhúsi á Reyðarfirði um síðustu áramót. Að baki því standa nú systurnar Elísabet Esther og Þórey Sveinsdætur og menn þeirra, Valur Þórsson og Gregorz Zielke.

Þær segja kaupin hafa átt sér skamman aðdraganda. Þær hafi íhugað að opna kaffihús en hjólin fóru á fullt þegar Valur, sem er bakarameistari Sesam, spurði þáverandi eigendur hvort þeir væru tilbúnir að selja.

„Ætli það hafi ekki verið þrír mánuðir eða svo frá því þetta kom til tals fyrir alvöru og þangað til við vorum búin að ná saman, þarna í byrjun desember. Ég var að vinna hér í bakaríinu með Val fyrir um sjö árum síðan og mig hefur lengi langað til að opna mitt eigið bakarí og kaffihús. Það var búið að vera draumur hjá mér í mörg, mörg ár,“ segir Þórey.

„Ég var búin að segja manninum mínum (Gregorz) í mörg ár að ég hygðist einhvers staðar ætla að opna bakarí sem skyldi heita Súpan. Svo hringdi Valur í mig einn góðan veðurdag seint á síðasta ári og spurði hvort ég hefði áhuga á að koma með honum í þetta. Það heillaði mig því það var aldrei inni í myndinni að ég og Gregorz færum bara tvö út í slíkt ævintýri. Ég er matartæknir svo ég veit svona lítið eitt um bakstur og eldamennsku. Hér erum við nú og þetta er ótrúlega spennandi verkefni.“

Góðir starfsmenn lykilatriði


Sem og á öllum vinnustöðum er stærsta breytan jafnan að hafa gott og vant starfsfólk, en slíkt er ekki alltaf sáraeinfalt á Austurlandi þar sem sár skortur er á vinnandi höndum í velflestum fyrirtækjum. Fleiri fyrirtæki en færri fá ekki það starfsfólk sem þau þurfa til að vaxa og dafna, einfaldlega vegna þess að á Austurlandi er ekkert húsnæði aflögu fyrir aðflutt fólk og hefur ekki verið lengi vel.

„Stærsta vandamálið okkar nú er að finna annan bakara með Val,“ segir Elísabet. „Við vissum svo sem að starfsmannamál gætu orðið snúin. Sjálf er ég mannauðsstjóri í álverinu og þekki vel hversu erfitt er að verða sér úti um gott starfsfólk. Okkur sárvantar nú þegar góðan bakara. Fyrri eigendur voru búnir að auglýsa eftir slíkum aðila um tíma án árangurs og við tökum við því kefli því við þurfum nauðsynlega á öðrum bakara að halda til að gera það sem okkur langar til að gera af alvöru.

Valur, er auðvitað búinn að nýta sitt tengslanet í gegnum Bakarafélagið og fleiri aðila til að finna aðila, en ekkert hefur borið árangur ennþá. Þetta er miklu meira en að segja það því þetta snýst auðvitað allt um að húsnæði sé til reiðu áður en einhver utanaðkomandi ákveður að taka stökkið hingað og það er mikill skortur á hentugu húsnæði, sem stendur ýmsu fyrir þrifum. En eins og staðan er og til að við getum gert það sem okkur langar að gera hér þá þurfum við góðan bakara í viðbót við Val. Það má ekki allt standa og falla með honum enda vinnur hann nú þegar of mikið.“

Valur og Sesam


Elísabet segir auðvitað framtíðina standa og falla með eiginmanninum Val Þórssyni bakarameistara og hvernig beinlínis megi rekja upphaf Sesam brauðhúss til hans á sínum tíma.

„Valur er auðvitað búinn að starfa hér frá upphafi og hann er að stórum hluta ástæða þess hve vel hefur gengið hér undanfarin ár. Það er dálítið skemmtileg saga frá að segja að við kynntumst fyrst árið 2008 og hann flutti hingað austur á land árið 2009 fyrir mig. Þá var hann meira og minna búinn að vera að baka frá því að hann var tólf ára gamall.

Hann var umsvifalaust ráðinn sem kokkur í álveri Alcoa-Fjarðaáls strax í upphafi af Valmundi (Valmundssyni) sem rak og rekur veitingaþjónustuna þar. Nema hvað, að Valur tók eftir því að það var hellingur af bökunardufti og bökunarvörum á lagernum í álverinu og fór að hugsa hver þremillinn þetta sé allt að gera þar. Þannig að hann greip þetta á lofti og fór bara að baka svona í og með kokkastarfinu.

Það spurðist fljótlega út hvað bakkelsið og kökurnar væru góðar og fljótlega var hann farinn að mæta extra snemma allar nætur til þess að geta bakað líka fyrir fólkið fyrir utan að elda matinn. Í kjölfarið ákvað Valmundur að opna bakarí og gerði það í október árið 2011. Valur er búinn að vera hér síðan.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar