Vandræði á nokkrum vegum í dag
Ökumenn lentu í vandræðum á nokkrum fjallvegum á Austurlandi í dag. Opnað var um stund seinni partinn milli Hafnar og Djúpavogs. Ný gul viðvörun hefur verið gefin fyrir Austurland vegna snjókomu annað kvöld.Ökumenn lentu í vandræðum á Fagradal og Fjarðarheið um hádegi í dag en hált var á þeim leiðum. Þá þurfti að aðstoða ferðalanga sem lagt höfðu á Hellisheiði þótt hún hafi ekki enn verið opnuð í ár. Allar leiðir til Vopnafjarðar eru því lokaðar þar sem vonskuveður er á Sandvíkurheiði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu urðu engin slys á fólki í þessum atvikum.
Vegurinn milli Djúpavogs og Hafnar var opnaður um stund þegar lægði upp úr klukkan þrjú. Hann lokast aftur klukkan sex. Stórum ökutækjum, sem taka á sig mikinn vind, var ekki hleypt á veginn.
Appelsínugul viðvörun vegna norðvestan storms og hríðar gildir á Austurlandi og Austfjörðum þar til klukkan fimm í fyrramálið. Þá á heldur að lægja og við tekur gul viðvörun til klukkan níu að morgni.
Þá gaf Veðurstofan í dag út nýja viðvörun sem gildir frá klukkan 16 á morgun og fram yfir miðnætti. Spáð er norðvestan 8-15 m/s með úrkomu sem fellur sem rigning eða slydda við sjávarmál annars staðar sem snjókoma til fjalla með versnandi færð.
Mynd úr safni.