Vegagerðin segir Múlaþing bera ábyrgð á akstri milli Egilsstaða og Borgarfjarðar

Óvissa er um framhald almenningssamgangna milli Egilsstaða og Borgarfjarðar frá næstu áramótum þar sem Vegagerðin hefur ákveðið að halda ekki áfram akstri á leiðinni. Heimastjórn Borgarfjarðar skorar þess að ákvörðunin verði endurskoðuð en Vegagerðin segir akstur innan sveitarfélags vera á höndum þess.

Heimastjórn Borgarfjarðar bókaði á síðasta fundi sínum að hún harmaði ákvörðun Vegagerðarinnar að framlengja ekki gildandi þjónustusamning sinn við Borgarhöfn ehf. um aksturinn. Heimastjórnin lýsir ákvörðuninni sem kaldra kveðja til Borgfirðinga sem hafi nýtt ferðirnar til að sækja þjónustu utan fjarðarins, svo sem heilbrigðisþjónustu, skóla og verslun. Heimastjórnin óskar þess að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Núverandi samningur við Borgarhöfn ehf. rennur út um næstu áramót. Hilmar Stefánsson, forstöðumaður almenningssamgangnasviðs Vegagerðarinnar, segir að í fyrsta lagi hafi Borgarhöfn ekki verið tilbúin til að framlengja samninginn.

Í öðru lagi sé leiðin mjög illa nýtt, innan við einn farþegi í hverri ferð. Í samtölum við heimafólk hafi verði bent á mikilvægi vöruflutninga en reglurnar séu þær ekki eigi að flytja vörur og farþega í einu. Því sé það ekki forræði Vegagerðarinnar að annast þá.

Í þriðja lagi sé Vegagerðin að endurskoða allt leiðakerfi sitt á landsbyggðinni. Ákveðnar skilgreiningar eigi við um hvaða leiðir hún skuli aka en innan þeirra eru ekki leiðir innan sveitarfélaga. Samkvæmt því ætti Múlaþing að sjá um aksturinn.

„Við skiljum afstöðu fólksins en það er eðlilegt að taka samtalið um hver sinnir hverju. Við lítum svo á að boltinn sé hjá sveitarfélaginu núna en ekki hjá Vegagerðinni.“

Vegagerðin sér um akstur á fjórum leiðum á Austurlandi, milli Egilsstaða og Akureyrar og Egilsstaða og Reykjavíkur. Það fellur undir skilgreiningu að tengja saman byggðarlög milli sveitarfélaga. Þá heldur Vegagerðin utan um akstur milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða þar sem hún á að tengja saman ferju- og flughafnir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar