Veiðistjórnun á rjúpu svæðisskipt í framtíðinni

Veiðistjórnun á rjúpu tekur breytingum í framtíðinni en í stað þess að landið allt sé eitt svæði eins og verið hefur skal svæðum skipt niður í sex svæði eftirleiðis. Slíkt á betur að tryggja viðhald og vernd rjúpnastofnsins.

Þetta er meginstefið í nýju veiðistjórnunarkerfi á rjúpu sem kynnt var formlega af hálfu Umhverfisstofnunar í gær. Kerfið hefur verið í vinnslu um skeið og allir helstu hagsmunaaðilar þar lagt sín lóð á vogarskálarnar auk þess sem sérfræðingur frá Bandaríkjunum veitti fræðilega ráðgjöf við ferlið.

Í grunninn felur þetta í sér að sérstakt stofnlíkan reiknar út veiðidagafjölda fyrir hvert og eitt svæði en þar er, ólíkt því sem áður var, tillit tekið til stöðunnar á hverju og einu svæði. Miklu getur munað á rjúpnafjölda á milli landssvæða en svæðisbundin stjórnun mun bæði vernda stofninn og leyfa sjálfbærar veiðar.

Veiðidagafjöldi eina breytan

Með nýja kerfinu verður veiði fimm daga vikunnar og þeir dagar heilir en tímabilin hlaupa á fimm daga bilum. Veiðitímabil skal hefjast árlega fyrsta föstudag á eða eftir 20. október. Þegar komin verður reynsla á hlutina mun ekkert breytast nema fjöldi veiðidaga á hverju svæði sem þá tekur mið af vorstofnmælingum það árið. Líkanið mun með öðrum orðum grípa inn í og stilla af fjölda daga með tilliti til ástands stofns á hverju svæði.

Fram kom í máli Bjarna Jónassonar, eins fulltrúa Umhverfisstofnunar á fundinum, að með tíð og tíma muni líkönin einnig taka veðurfarsupplýsingar inn í breytur sínar og þannig fjölga enn frekar gögnum sem nýtast til að meta stöðuna eins nákvæmt og unnt er hverju sinni.

Mikið flökt hefur verið á rjúpnastofninum austanlands síðustu árin en nýtt kerfi mun taka mið af slíkum sveiflum í öllum landshlutum. Mynd UST

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar