Vél til að vinna sæbjúgu verðlaunuð sem Framúrstefnuhugmynd í sjávarútvegi

Davíð Freyr Jónsson frá Egilsstöðum tók á fimmtudag við verðlaunum fyrir Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2018. Davíð Freyr fer fyrir fyrirtækinu Auroa Seafood sem ásamt öðrum vinnur að því að þróa vinnsluvélar fyrir sæbjúgu.

„Fyrst og fremst er þetta viðurkenning að við séum að gera eitthvað áhugavert. Okkur hefur þótt það sjálfum en ekki vitað að öðrum þætti það líka,“ segir Davíð Freyr.

Davíð Freyr er framkvæmdastjóri Aurora Seafood sem í gær fékk afhenta Svifölduna, verðlaun sem veitt eru fyrir framsæknar og frumlegar hugmyndir í sjávarútvegi. Aurora vinnur að þróun vinnsluvélar fyrir sæbjúgu í samvinnu við Curio ehf.

Í umsögn segir að sæbjúgu hafi verið unnin hérlendis frá árinu 2003. Ávallt hafi framleiðendur reynt að hanna og smíða vélar til að skera sæbjúgun. Það hafi reynst erfitt því sæbjúgun hafi misjafna lögun.

Komast á stig fjórðu iðnbyltingarinnar

Aurora hefur verið meðal frumkvöðla í veiðum og vinnslum á sæbjúgum og hlaut í fyrra Evrópustyrk upp á um 200 milljónir króna til að þróa veiðarfæri. „Viðurkenningin nú styrkir okkur í þeirri vegferð að færa nytjarnar til nútíðar.

Í þessu skrefi tökum við þær tækniframfarir sem orðið hafa í íslenskum sjávarútvegi síðustu 10-15 ár og bætum við nokkrum nýjungum. Það má segja að við séum að komast af stigi þriðju iðnbyltingarinnar í vinnslu á sæbjúgum á það fjórða,“ segir Davíð.

Hann lýsir vinnslunni þannig að færiband með sæbjúgum fari undir hnífinn sem geti hvorki aðlagað sig að lögun né stærð þeirra. Þá þurfi að vera sami hraði á því sem sett er á færibandið og unnið. Þetta allt hægi á vinnslunni og kalli á meira eftirlit og vandaða mötun.

Búnaðurinn metur sæbjúgað

Í umsögninni segir að vélbúnaður eins og sá Aurora Seafood er að þróa hafi ekki verið smíðaður áður. Búnaðurinn geti nýst víðar þannig að kjöt- og skinnframleiðsla hérlendis samkeppnishæf við ódýrt erlent vinnuafl.

Davíð Freyr lýsir lausninni á þann veg að litlir þjarkar verði á teinum. Hver og einn sé forritaður fyrir sig og þeir ekki háðir hver öðrum. Ef einn nái öðrum geti þeir beðið. Þá sé hægt að stýra öllum eiginleikum og geti þeir með myndgreiningu hagað sér eftir lögun eða stærð viðfangsins.

„Við fáum lánaðan huga mannsins til að greina vinnsluna, til dæmis til að greina hvort sæbjúgað sé hæft til fullvinnslu eða hvort það sé of lítið.“

Prófanir upp úr áramótum

Framundan er hins vegar töluverður tími í að prófa búnaðinn. Það verður bæði gert í vinnslu Aurora á Stokkseyri og hjá Curio í Hafnarfirði. „Teikningar og hönnun eru komin á það stig að hægt er að byrja að setja saman frumgerð. Við vonumst til að geta sett hana saman fyrir jól og byrjað að prófa hana upp úr áramótum. Síðan er töluvert langt ferli í að fá hana til að virka.“

Aurora Seafood gerir út einn bát, Klett ÍS, sem verið hefur á veiðum úti fyrir Austfjörðum á árinu og mest landað á Stöðvarfirði.

„Veiðar á sæbjúgum eru að ná sögulegu hámarki í ár, við erum að nálgast sex þúsund tonn á þessu almanaksári. Á sumum svæðum hefur veiði verið umfram endurnýjun sem er hættulegt. Það er fyrirséður samdráttur ef ekki finnast ný mið, en við erum bjartsýnir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.