Verkmenntaskólinn fékk viðurkenningu á uppskeruhátíð Evrópusamstarfs
Verkefnið „Efling starfsnáms við VA með erlendu samstarfi II“ sem Verkmenntaskóli Austurlands hefur staðið fyrir um nokkurra ára skeið fékk fyrr í þessum mánuði sérstaka gæðaviðurkenningu á 30 ára uppskeruhátíð Evrópusamstarfs.
Verkefnið tengist Erasmus+ samstarfsverkefni Evrópusambandsins og EES-ríkjanna en Íslendingar hafa lengi verið afkastamikilir þátttakendur í ýmsum verkefnum sem styrkt eru úr sjóðum Evrópusambandsins. Verkmenntaskólinn einn þeirra sem tekið hafa ríkan þátt um hartnær tíu ára skeið.
Aðspurður um gildi slíkrar viðurkenningar segir Birgir Jónsson, aðstoðarskólameistari Verkmenntaskólans, að viðurkenningin sé fyrst og fremst vitnisburður um hversu vel hafi tekist til og báðir aðilar notið góðs af þessu farsæla samstarfi.
„Þetta samstarf hefur haft afskaplega mikil og góð áhrif fyrir okkur hér og þar fyrst og fremst nemendur okkar en ekki síður kennara og stjórnendur skólans. Gegnum þetta erum við í miklum samskiptum við ýmsa aðila úti í Evrópu, embættismenn og stofnanir og fleiri, og slíkt hefur gagnast okkur afar vel til að víkka út sjóndeildarhring okkar allra í skólanum.“
Skólameistari VA, Eydís Ásbjörnsdóttir, með Leifi Páli Guðmundssyni og Önnu Maríu Sigurðardóttur á uppskeruhátíðinni en þar fór bæði fram málþing um gildi Evrópusamvinnu og uppskeruhátíð þar sem þátttakendur kynntu sig og sín verkefni. Mynd Verkmenntaskólinn