Verulega jákvæð hagræn áhrif af fiskeldi í Stöðvarfirði

Í niðurstöðu umhverfismats um fyrirhugað laxeldi í Stöðvarfirði sem kom út fyrr í sumar segir að eldið muni hafa verulega jákvæð áhrif á hagræna og félagslega þætti. Áhrif á aðra nýtingu verða óveruleg en að hluta til einnig talsvert jákvæð og að mestu leyti afturkræf.

„Áhrif á landslag og ásýnd verða bæði óveruleg og talsvert neikvæð en afturkræf. Áhrif á botndýralíf verða talsvert neikvæð, en staðbundin og afturkræf. Áhrif á eðliseiginleika sjávar, villta laxfiska, menningarminjar og verndarsvæði verða óveruleg til talsvert neikvæð,“ segir í matinu sem unnið var á vegum Fiskeldis Austfjarða hf.
Enn fremur segir að heildarniðurstaðan sé því sú að í flestum tilvikum verða áhrif vegna eldisins óveruleg. Neikvæð áhrif verða að miklu leyti staðbundin og afturkræf.

Hefur umhverfisvottunina AquaGap

Fiskeldi Austfjarða hf. hóf starfsemi árið 2012 og hefur síðan verið unnið markvisst að uppbyggingu laxeldis á Austfjörðum. Félagið er með umhverfisvottunina AquaGap á framleiðslu og vinnslu sinni, en vottunin gerir kröfur um sjálfbærni og rekjanleika. Áætlanir gera ráð fyrir að alinn verði lax og að árleg framleiðsla verði 7.000 tonn, að því er segir í matinu.

Ennfremur segir að Hafrannsóknarstofnun hafi gefið út burðaþolsmat fyrir Stöðvarfjörð upp á 7.000 tonna lífmassa, en auk þess hefur stofnunin birt áhættumat fyrir fjörðinn vegna hættu á erfðablöndun milli eldisfisks og náttúrulegra laxastofna. Í samræmi við það mun Fiskeldi Austfjarða einvörðungu ala ófrjóan lax.

Áhætta vegna erfðablöndunar endurskoðuð reglulega

Í áhættumati vegna erfðablöndunar er gert ráð fyrir að það sé endurskoðað reglulega. Komi til þess að endurskoðun leiði til þess að ala megi frjóan fisk í Stöðvarfirði, þá áskilur Fiskeldi Austfjarða sér rétt til að gera slíkt. Fiskeldi Austfjarða hefur þegar starfsemi í tveimur fjörðum, þ.e. Berufirði og Fáskrúðsfirði. Félagið hefur rekstrar- og starfsleyfi í báðum fjörðunum og er heimilt að ala 9.800 tonn af laxi í Berufirði og 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði.

Í matinu er farið í gegnum einstaka þætti eins og t.d. sjúkdóma, laxalús, slysasleppingar, fuglalíf, ferðaþjónustu og fiskveiðar.
Hvað sjúkdóma varðar segir m.a. að komi til þess að villtur fiskur sýkist af völdum smits frá eldisfiski eru slík áhrif talin afturkræf. „Vægi slíkra áhrifa eru óveruleg vegna þess að búsvæði villtra laxfiska eru fjarri eldissvæðinu og stærð villtra laxfiskastofna talin lítil í firðinum. Góð staða í sjúkdómamálum hérlendis og bólusetning eldisseiða styður þessa niðurstöðu,“ segir í matinu.

Erfðablöndun skapar ekki verulega hættu

Í matinu segir ennfremur að til að strokulaxar hafi varanlegar erfðabreytingar för með sér á tilteknum laxastofni er nauðsynlegt að stöðugt (í áraraðir) berist nýtt erfðaefni frá kynþroska eldislöxum í villtan lax.

„Laxar í íslenskum ám eru undir sterku vali og því má búast við að eiginleikar sem draga úr hæfni laxins veljist hratt burt. Áætlaður fjöldi strokulaxa sem leitar í laxveiðiár, bendir ekki til þess að framkvæmdin skapi verulega hættu og muni skaða villta laxastofna með erfðablöndun,“ segir í matinu.

Áhrif á ferðaþjónustu ekki neikvæð

Hvað áhrif á ferðaþjónustu varðar segir að eldiskvíarnar muni hafa óveruleg áhrif á ásýnd og ímynd fjarðarins. „Innlendar og erlendar rannsóknir benda til þess að breytt ásýnd muni ekki hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna á svæðinu. Eldiskvíarnar munu ekki trufla aðgengi og umferð ferðamanna í firðinum. Niðurstaðan er því sú að áhrif á ferðaþjónustu og útivist verða óveruleg og afturkræf. Niðurstaðan er því sú að áhrif á ferðaþjónustu og útivist verða óveruleg og afturkræf“,að því er segir í matinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.