„Við fundum tækifæri sem við munum vinna áfram með“

„Starfsfólk, jafnt karlar sem konur, hafa almennt lýst ánægju sinni með þetta frumkvæði og þátttakan í fundunum sem haldnir voru var góð,“ segir segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, en upp á síðkastið hefur verið fundaröð hjá fyrirtækinu undir merkjum #metoo byltingarinnar.



Öllu starfsfólki Fjarðaáls stóð til boða að taka þátt í fundunum þar sem vinnustaðarmenning, kynbundin mismunun og áreitni voru í forgrunni.

„Fyrst var fundur fyrir allar konur í fyrirtækinu þar sem þær gátu deilt sögum í öruggu umhverfi ef þeim þótti þeim hafa verið mismunað sökum kyns á vinnustaðnum eða þær verið áreittar. Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur stýrði kvennafundunum ásamt kvenstjórnendum hjá Fjarðaáli. Því næst tóku við karlafundir þar sem Magnús Orri Schram stýrði fræðslu og umræðum um málefni kynjanna.

Eftir fundina hittust allir stjórnendur fyrirtækisins og fóru yfir stöðu mála og unnu saman að því að ákveða næstu skref og hvernig unnið verður áfram með þessi mál hjá fyrirtækinu,“ segir Dagmar Ýr.

Jafnrétti og stöðugar umbætur
„Fjarðaál hefur lengi verið í fremstu röð fyrirtækja hér á landi í jafnréttismálum og fyrirtækið leggur mikinn metnað í að gera sitt besta þegar kemur að þeim málaflokki. Einnig starfar fyrirtækið eftir þeirri hugmyndafræði að mikilvægt sé að huga stöðugt að umbótum og þessi málaflokkur er þar ekki undanskilinn. Því þótti sjálfsagt að við myndum rýna vinnustaðarmenningu okkar með tilliti til kyns og hefur verið ákveðið að það verði eitt af aðalmarkmiðum fyrirtækisins á árinu að bæta vinnustaðarmenningu og tryggja þannig að öllum líði vel í vinnunni,“ segir Dagmar Ýr.

Virk umræða og bætt vinnustaðamenning
Aðapurð hvort einhver mál hafi komið upp við umræðuna segir Dagmar Ýr; „Við fundum tækifæri sem við munum vinna áfram með enda var það tilgangur vinnunnar. Við leggjum áherslu á að hafa heilbrigða vinnustaðarmenningu hjá Fjarðaáli þar sem allir starfsmenn eru velkomnir, metnir að verðleikum og hafa jöfn tækifæri. Að fá breiða þátttöku í samtal um heilbrigða vinnustaðarmenningu er þarft og starfsmenn hafa tekið því vel.

Mannauðsteymið ásamt samfélagsteyminu mun vinna áfram með málið og eitt af markmiðum fyrirtækisins árið 2018 verður að halda uppi virkri umræðu og bæta vinnustaðarmenninguna.“

Styrkur í þágu jafnréttismála
Fjarðaál veitti UNWomen 300 þúsund króna styrk í tengslum við fundaröðina. „Viðeigandi þótti að veita UNWomen styrk sem félagið getur nýtt til góðra verka í þágu jafnréttismála. Fjarðál hefur áður starfað með UNWomen en árið 2015 var staðið fyrir HeForShe átaki hjá fyrirtækinu.“





Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.