„Við hlökkum til að heyra sögurnar ykkar“

Alexandra Ýr Ingvarsdóttir, nemi við Verkmenntaskóla Austurlands og Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, kalla um þessar mundir eftir minningum samfélagsins úr Oddsskarðsgöngunum.


Alexandra Ýr er sextán ára Norðfirðingur í húð og hár. Hún hefur búið í Neskaupstað alla tíð og Oddsskarðsgöngin því órjúfanlegur hluti af hennar lífi eins og annarra íbúa.

Það eru tvö og hálft ár síðan hún fékk þá hugmynd að eftir lokun Oddsskarðsganga væri gaman að fá fólk til þess að skrifa nafnið sitt á veggi þeirra. Hún lét ekki þar við sitja og sendi hana inn á borð þáverandi bæjarstjóra, Páls Björgvins Guðmundssonar.

„Mín hugmynd var sú að fólk myndi skrifa nöfnin sín inn í göngin, en ég sá hana sem mína leið til að kveðja og heiðra göngin. Páli Björgvini leist vel á hana og hafði samband við Körnu og við hittumst á fundi.

Ég æfði alltaf skíði og flestar minningar sem ég á sjálf tengdar göngunum eru tengdar þeirri iðkun. Sjálf er ég auðvitað mjög ánægð með nýju göngin, nema þegar ég er að fara á skíði, því leiðin á skíðasvæðið lengdist töluvert eftir að gömlu göngin lokuðu, þetta verður ekki eins mikið „skrepp“ núna.“ segir Alexandra Ýr og hlær.

Minningahellir í fjalli
Hugmyndin var eitt af fyrstu verkefnunum sem komu inn á borð Körnu eftir að hún hóf störf sem forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.

„Alexandra Ýr var aðeins fimmtán ára gömul þegar hún skrifaði þetta erindi og lagði til að samfélagið fengi að kveðja göngin með formlegum hætti. Páll Björgvin var afar hrifinn af hugmyndinni og bað mig um að halda áfram með hana eftir að hann léti af störfum. Sjálfri þótti mér það einnig afar mikilvægt fyrir samfélagið að eitthvað yrði gert með gömlu göngin sem hafa þjónað samfélaginu í fjörutíu ár. Það er mjög sérstakt að allt í einu sé orðinn til hellir upp í fjalli sem svo margr minningar eru tengdar,“ segir Karna.

Formleg kveðjuathöfn í sumar
Hugmyndin hefur þróast og stækkað og er nú að verða að veruleika. „Í sumar áætlum við að vera með formlega kveðjuathöfn í göngunum, byggða á minningum samfélagsins úr þeim. Við leitum því hér með til ykkar eftir minningum um göngin, og hvetjum fólk á öllum aldri til að senda okkur sögustúf í formi texta, ljósmynda eða hljóðfæla. Við hlökkum til að heyra sögurnar ykkar,“ segir Karna.
Minningarnar skal senda í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða á skrifstofu Fjarðabyggðar merkt „Manstu Oddsskarðsgöngin“ fyrir 15. janúar 2019.


Alexandra Ýr





Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.