Viðgerð sundlaugar setur strik í gerð heimildamyndar

Ástand sundlaugarinnar á Reyðarfirði hefur ekki eingöngu áhrif á sundkennslu á staðnum heldur einnig gerð heimildamyndar um sundlaugar á Íslandi sem fyrirhugað er að frumsýna í haust.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands krafðist þess í maí í fyrra að lauginni yrði lokað tafarlaust eftir að málningaragnir fundust í vatninu. Við athugun kom í ljós að skemmdir á lauginni voru umfangsmeiri en ráð var fyrir gert og viðgerð þar með flóknari.

Bæjarráð Fjarðabyggðar ákvað í síðasta mánuði að laugin verði dúkalögð vorið 2021 sem þýðir að grunnskólabörnum verður kennt sund á Eskifirði í haust, líkt og gert hefur verið frá því að lauginni var lokað.

Einstök á heimsvísu

En lokun laugarinnar hefur áhrif víðar en bara á skólasundið. Kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Karl Helgason hefur að undanförnu unnið að heimildamynd um sundlaugar og sundmenningu á Íslandi.

Hann kom austur í fyrravor og myndaði íþróttakennslu á Reyðarfirði fyrir myndina. Hann ætlaði svo að mynda daginn eftir þegar sundlaugin yrði fyllt og sundkennsla hæfist en af því varð ekki.

Í bréfi Jóns Karls, sem tekið var fyrir á síðasta fundi bæjarráðs, óskar hann eftir leyfi og stuðningi til þess að geta fyllt laugina og geta myndað börn í sundkennslu. Þar tekur hann jafnframt fram að hann sé til í að taka þátt í kostnaði sem til falli.

Jón Karl bendir þar á að sundlaugin sé einstök á landsvísu, jafnvel heimsvísu, því hún sé sú eina sem breytist úr því að vera íþróttavöllur í að vera sundlaug, en sundlaugin er undir gólfi núverandi íþróttahúss.

Í bókun bæjarráðs er áréttað að viðgerðir séu ekki áformaðar fyrr en næsta vor og rætt verði við Jón Karl á þeim forsendum. Í bréfi hans kemur fram að fyrirhugað sé að frumsýna myndina í nóvember næstkomandi.

Undirbúningur hafinn fyrir íþróttahús

Af framkvæmdum við íþróttamannvirki á Reyðarfirði er það jafnframt að frétta að vinna er hafin við jarðvegsskipti fyrir nýtt íþróttahús. Vonast er til þess að hægt verði að ljúka þeim fyrir 20. Ágúst þegar skólastarf hefst þar að nýju.

Í tilkynningu frá Fjarðabyggð segir að búið sé að girða svæðið, sem er vinsælt leiksvæði barna, af og þeim tilmælum beint til foreldra og forráðamanna að brýna fyrir börnum sínum að fara varlega í grennd. Af þessum sökum verður ærslabelgurinn ekki í notkun á meðan vinnu stendur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.