Viðsnúningur í rekstri Náttúrustofu Austurlands

Jákvæður viðsnúningur varð á rekstri Náttúrustofu Austurlands (NA) á síðasta ári en stórauknar tekjur vegna ýmissra sérverkefna skýra bætta stöðu milli ára.

Rekstrarafkoma stofnunarinnar 2023 reyndist jákvæð um rétt tæpar níu milljónir króna samkvæmt nýútkomnum ársreikningi fyrir það ár samanborið við rúmlega þrettán milljóna króna tap árið áður.

Þrátt fyrir að velflestir kostnaðarliðir hafi hækkað frá árinu áður og opinber framlög staðið í stað skýra aukatekjur vegna sérverkefna af ýmsu tagi þessa jákvæðu þróun að sögn Kristínar Ágústsdóttur forstöðumanns.

„Auknar tekjur skýrast einmitt af auknum sértekjum, rannsóknarverkefnum sem unnin eru fyrir ýmsa aðila. Þar helst rannsóknir á fuglum, gróðri og vatnalífríki vegna mats á umhverfisáhrifum ýmissa framkvæmda, rannsóknir á gróðri, fuglalífi og jarðfræði á náttúruverndarsvæðum og umhverfisvöktun.“ 

Aðaláhersla á verndarsvæði

Í ársskýrslu NA vegna síðasta árs kemur fram að áfram var haldið með samstarfsverkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa landsins sem hófst árið 2020. Fyrstu tvö árin var aðal áherslan lögð á verndarsvæði og önnur svæði sem eru undir álagi ferðamanna eða svæða sem gætu orðið fyrir auknu álagi ferðamanna á næstunni.

Aukinheldur sinnti NA mælingum á fimm gróðursniðum á Vestur-öræfum, taldi mó- og vatnafugla á Úthéraði og strandfugla utan varptíma í Berufirði og Breiðdal og rannsakaði Strútsfoss í Fljótsdal og svæðið þar í kring með tilliti til álags á jarðminjar. Þá voru könnuð svæði við Hafrahvammagljúfur og þar sérstaklega skoðað álag vegna ferðafólks. Síðast en ekki síst hófst vöktun á hagamúsum í Egilsstaðaskógi síðasta haust og verður vaktað áfram.

Álag ferðafólks á náttúruna í og við Strútsfoss var meðal þess sem NA kannaði á liðnu ári. Mynd Visit Austurland

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.