Viðmiðið verður að mæta 45 mínútum fyrir brottför

Vel gekk að taka á móti nýrri Bombardier Q400 flugvél Flugfélags Íslands sem kom sína fyrstu ferð austur í Egilsstaði í gærkvöldi. Stöðvarstjóri Flugfélagsins á Egilsstöðum segir starfsmenn þar þurfa að koma sér upp nýjum vinnuaðferðum.


„Þetta þýðir að það verða fleiri farþegar til að afgreiða í hverri ferð og þá væntanlega meiri farangur,“ segir stöðvarstjórinn, Halldór Örvar Einarsson.

Bombardier Q400 vélarnar verða þrjár og taka 72-76 farþega í stað Fokker-anna sem voru 50 sæta. Meira umstang fylgir fleiri farþegum og því er þeim tilmælum beint til farþega að mæta 45 mínútum fyrir brottför í stað 30 mínútum eins og verið hefur.

„Við þurfum að fá fólkið fyrr í hús til að geta kallað það fyrr um borð en við höfum gert,“ segir Örvar.

Hann hefur engar áhyggjur af að illa gangi að fá fólk inn á réttum tíma. „Við höfum verið að fylgjast með komutíma og þetta á alveg að ganga upp. Það verða alltaf einhverjir sem mæta síðast og aðrir sem mæta tímanlega. Sumir mæta alveg klukkutíma fyrir brottför.“

Vélin er öðruvísi hönnuð og því fylgja breytt vinnubrögð. „Við höfum fengist við Fokker-inn í 25 ár og þurfum því pínu að finna upp hjólið.“

Starfsmenn Flugfélagsins hafa því verið sendir í þjálfun. „Já, við höfum fengið góða kynningu. Ég var síðan sendur í þjálfun suður og sýndi strákunum hvernig ætti að vinna við vélina. Það gekk alveg snurðulaust fyrir sig hjá okkur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.