Vilja að lífeyrissjóðir beiti áhrifum sínum til að halda aftur af launum stjórnenda

Stjórn AFLs Starfsgreinafélags skorar á lífeyrissjóði Alþýðusambandsfélaga að beita hlutafjáreign sinni í hlutafélögum til að koma í veg fyrir stjórnlausa sjálftöku stjórnenda fyrirtækjanna.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi félagsins í dag.

Þar er bent á að lífeyrissjóðirnir séu það stórir eigendur í fyrirtækjum landsins að eðlilegt sé að sjónarmið eigenda lífeyrisréttinda komi sterklega fram á aðalfundum fyrirtækjanna, ekki síður en sjónarmið annarra fjármagnseigenda.

Þegar almennt launafólk eigi orðið 30-50% í stærstu fyrirtækjum landsins sé eðlilegt að eigendastefna lífeyrissjóðanna verði ráðandi við stjórn og starfsemi fyrirtækjanna.

Umræður um kjarastefnu stærstu fyrirtækja landsins hefur blossað upp eftir að greint var frá milljóna bónusum til forstjóra olíufélagsins N1. Lífeyrissjóðirnir eiga þar samanlagt um helming hlutafjár, þar af á Stapi, arftaki Lífeyrissjóðs Austurlands, 2,78%. Úrskurðir Kjararáðs hafa einnig hleypt illu blóði í verkalýðshreyfinguna.

Í ályktuninni segir að ljóst sé af fréttum að fjármálayfirstétt landsins hafi ekkert lært og engu gleymt. Lítið hafi breyst frá því á árunum fyrir hrun.

„Í komandi kjarasamningum verður það verkefni verkalýðshreyfingarinnar að sækja sjálfsagðar kjarabætur launafólks og ekki síður að freista þess að siðvæða fjármálakerfið. Almennt launafólk gerir ekki aðeins kröfu til kjarabóta – heldur og ekki síður til þess að almenningur og stjórnendur sitji við sama borð. Að kjararáð og kjaradómur séu ekki sjálfráða um gegndarlausar hækkanir til embættismanna og kunningjasamfélagið í stjórnum fyrirtækja um gagnkvæmar hækkanir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.