Vilja heilsársveg yfir Öxi inn á samgönguáætlun

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps telur eðlilegt að ráðist verði í gerð heilsársvegar yfir Öxi í framhaldi af vegabótum í botni Skriðdals. Það sé í samræmi við ályktanir aðalfunda Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA).

Þetta kemur fram í áskorun sem samþykkt var á síðasta fundi fráfarandi hreppsnefndar sem var í júní. Þar fór Andrés Skúlason fráfarandi oddviti, yfir stöðuna í samgöngumálum sveitarfélagsins en Andrés hætti í sveitarstjórn í voru eftir 16 ára setu.

Í bókun frá fundinum kemur fram að Axarvegur hafi verið langstærsta baráttumál Djúpavogshrepps um langt skeið og á síðustu vikum og mánuðum hafi oddvitinn fundað um málið með ráðherrum, þingmönnum, vegamálastjóra og öðru sveitarstjórnarfólki á Austurlandi.

Vinnan hafi einkum miðað að því að koma Öxi inn á samgönguáætlun til næstu fjögurra til fimm ára með fullnaðarfjármögnun þar sem framkvæmdum yrði skipt niður á þrjú ár. Mikilvægt sé að ný hreppsnefnd fylgi málinu eftir þar sem ný samgönguáætlun verður lögð fram á Alþingi í haust.

Undirbúningur Axarvegar var kominn vel á skrið fyrir efnahagshrunið 2008 en þá að miklu leyti ýtt út af borðinu. Í bókuninni segir að þá hafi verið ákveðið að skipta verkinu upp í þrjá hluta, í fyrsta lagi nýjan veg um botn Berufjarðar, í öðru lagi nýjan veg í botni Skriðdals og í þriðja lagi heilsársveg yfir Öxi.

Vegurinn í Berufirði á að vera tilbúinn í lok sumars. Kaflinn í Skriðdal var boðinn út nýverið og átti Héraðsverk lægsta tilboðið.

Þá segir að mikilvægur árangur hafi náðst með að afla stuðnings meirihluta fulltrúa á aðalfundum SSA. Sveitarstjórnin þakkar þeim sveitarfélögum á Austurlandi sem stutt hafa baráttu hreppsins fyrir veginum.

Áskorun sveitarstjórnarinnar er beint til samgönguráðherra, þingmanna Norðausturkjördæmis og Alþingi alls að standa við gefin fyrirheit um að ráðast í gerð heilsársvegar um Öxi við gerð næstu samgönguáætlunar, í beinu framhaldi af veginum í botni Skriðdals.

Sveitarstjórnin krefst þess að Alþingi virði skýra niðurstöðu aðalfunda SSA um forgangsröðun framkvæmda, annað sé óboðlegt gagnvart lýðræðislegri niðurstöðu fundanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.