Vindstyrkurinn fór hátt í 60 metra á sekúndu í Hamarsfirði

Hvassviðrið austanlands hefur óvíða verið meira en á Djúpavogi og í fjörðunum sunnan af bænum en mesti vindstyrkurinn þar fór langleiðina í 60 metra á tímabili í Hamarsfirði í fyrrinótt. Eina tjónið sem vitað er um er þegar húsbíll valt út af veginum í Álftafirði en engin slys urðu á fólki.

Að öðru leyti er ekki yfir neinu að kvarta að sögn Eiðs Ragnarssonar, ferðaþjónustubónda og fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi. Vissulega hafi ruslatunnur og smádrasl fokið til þegar mest á gekk í gær en það sem af er í dag hefur veðrið að mestu verið til friðs.

„Það er auðvitað einhverjar ferðamenn sem sitja hér fastir eftir að veginum á milli Hornafjarðar og Djúpavogs var lokað í fyrrakvöld en þeir í raun ekkert mjög margir. Svo þykist ég vita að einhverjir ferðamenn bíði hinum megin eftir að komast til okkar hingað. Eina tjónið mér vitandi var þegar þessi húsbíll fór út af í Álftafirðinum. Annað tjón hefur verið lítið sem ekkert hér í kring.“

Vegalokunin milli Hornafjarðar og Djúpavogs skýrist þó ekki aðallega af miklum vindi heldur öllu frekar af svo duglegu sandfoki við Hvalnesskriður að varla sjást handa skil. Vegagerðin hyggst meta stöðuna að nýju eftir hádegið en miðað við veðurspá dagsins er talið ólíklegt að vegkaflinn verði opnaður þennan daginn.

Samkvæmt aðvörunarkorti Veðurstofu Íslands detta allar aðvaranir á Austurlandi niður í fyrramálið en út daginn og fram á nótt getur vindstyrkur náð allt að 25 metrum á sekúndu.

Mynd sem Eiður smellti af þegar vindur stóð sem hæst í Hamarsfirði í gærdag. Hvergi á láglendi mældist vindstyrkurinn jafn mikill á Austurlandi í fyrrinótt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar