Völlurinn er lokaður því vélarnar geta ekki lent í þessum skilyrðum

Þær flugvélar sem notaðar eru á Íslandi eru ekki gefnar upp til að þola þann hliðarvind sem var á Reykjavíkurflugvelli í gær. Upplýsingafulltrúi Isavia segir það alltaf ákvörðun flugstjóra eða flugrekstraraðila hvort flogið sé eða ekki.


Sterkur suðvestanvindur stóð á völlinn í gær og var því haldið fram að hann væri lokaður þannig ekki væri hægt að lenda þar sjúkraflugi. Það hefði hins vegar verið hægt ef suðvestur-norðausturbraut vallarins, sem lokað var í sumar, væri enn opin.

Í samtali við Austurfrétt í gær sagði upplýsingafulltrúi Isavia að ekkert hamlaði lendingum á austur-vesturbraut vallarins. Óhætt er að segja að sú fullyrðing hafi vakið upp sterk viðbrögð meðal flugmanna.

Hliðarvindurinn erfiður

Í gær tók að hvessa úr suðvestri á þriðja tímanum og bætti hratt í vindinn. Á Reykjavíkurflugvelli eru núna opnar tvær brautir, önnur snýr norður-suður en hin liggur nokkurn vegin þvert á hana, þó heldur í stefnuna norðvestur-suðaustur. Strekkingsvindur stóð því á hlið á báðar brautirnar í gær.

Best er að lenda beint upp í vindinn en erfitt getur verið að hafa stjórn á vélunum þegar vindurinn kemur frá hlið. Við bætist að mannvirki og náttúra í nágrenninu geta myndað strengi og þar með ókyrrð þegar vindur kemur til hlið en engar hindranir eru til staðar þegar lent er á hreinni flugbraut.

Eftir kaffi í gær var 20 m/s meðalvindur af suðvestri á Reykjavíkurflugvelli og náðu vindhviður upp í 25 m/s. Hliðarvindurinn var yfir 30 hnútar. Í flugrekstrarhandbókum flugvéla er gefinn upp hámarks hliðarvindstuðull, það er í hve miklum hliðarvindi vélarnar geta lent.

Var alltaf hægt að lenda

Hvorki Bombardier-vélar Flugfélags Íslands né Kingair vélar Mýflugs, sem annast sjúkraflugið, eru gefnar upp fyrir slíkar aðstæður. Reyndar segjast flugmenn sem Austurfrétt hefur rætt við ekki vita um neinar vélar sem framleiðendur ábyrgist í slíkum vindi. Við bætist að bremsuskilyrði versna hratt sé vatn eða krapi á flugbrautinni.

„Völlurinn er lokaður í þeim skilningi að vélarnar geta ekki lent í þessum skilyrðum,“ sagði flugmaður í samtali við Austurfrétt.

„Það var alltaf hægt að lenda en nú er það ekki lengur,“ sagði annar um lokun suðvestur-norðausturbrautarinnar, einnig þekkt sem 06/24 eða neyðarbraut. Hana hafi verið reynt að nota sem minnst þar sem aðflugið hafi verið yfir byggð. Þess vegna sé ekki fullt mark takandi á tölum um hve sjaldan hún hafi verið notuð.

„Við lokum ekki flugvöllum vegna veðurs“

Þær upplýsingar fengust hjá Isavia í morgun að ábyrgð stofnunarinnar sé að tryggja að búnaður á vellinum sé í lagi, snjóhreinsun, hálkuvörn, flugumferðarstjórn og fleira til staðar.

„Við lokum ekki flugvöllum vegna veðurs heldur er það flugmanna og flugrekstraraðila að ákveða hvort þeir lendi á vellinum eða ekki,“ segir í svari Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa, við fyrirspurn Austurfréttar.

„Þeir meta aðstæður og er þar tekið til aðstæðna á brottfararflugvelli, á flugleiðinni og á flugvellinum sem lent er á.

Nú er Reykjavíkurflugvöllur tveggja brauta völlur eftir að ríkið og Reykjavíkurborg sömdu um að loka braut 06/24. Það er auðvitað besta þjónustan að vera með flugbrautir í sem flestar áttir en það er þó ekki það eina sem veldur því að ekki er flogið.

Stundum hafa flugmenn kosið að fljúga ekki jafnvel þegar allar þrjár brautir voru opnar. En mergurinn málsins er að það er alltaf ákvörðun flugstjóra / flugrekstraraðila hvort lent er eða ekki út frá þeim aðstæðum sem skapast hverju sinni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar