Vonast til að geta komið á rafmagni í Fellum fyrir nóttina

Minnst tíu staurar eru brotnir í Fellalínu eftir mikla ísingu í nótt. Rafmagnslaust er frá Ekkjufelli að Hrafnsgerði og ekki útlit fyrir að rafmagn komist á fyrr en seint í kvöld.


„Við vonumst til að geta hleypt rafmagni á Fellin í kvöld ef ekki finnst meira að,“ segir Guðmundur Hólm Guðmundsson, hjá svæðisvakt RARIK á Austurlandi.

Mikil ísing hlóðst á raflínur í nótt og sló rafmagninu í gamla Fellahreppi út milli klukkan fimm og sex í nótt. Áætlað er að um 40 raforkukaupendur hafi dottið út.

Rafmagn er komið aftur á á Flúðum með því að klippa nærliggjandi eyðibýli frá og á Hafrafell. Ekki næst hins vegar að koma rafmagni á Staffell.

Rafmagn er á Ekkjufelli en síðan eru allir bæir úti þar til komið er að Droplaugarstöðum, ysta bæ í Fljótsdalshreppi að norðanverðu.

„Það eru að minnsta kosti tíu staurar brotnir og einhverjar línur slitnar. Versti kaflinn er á milli Ekkjufells og Kross. Þar er mest brotið og færið erfitt, staurarnir sprengdir ofan í klettana og á þeim er hált.

Þessar erfiðu aðstæður tefja verkið. „Það eru allir útimenn í vinnu og ríflega það. Við náum ekki að hleypa á línuna fyrir kvöldmat, vonandi fyrir nóttina ef ekki kemur meira í ljós.

Við höfum ekki náð að fullkanna línuna. Ef það finnast fleiri bilanir verður hún tekin í áföngum þar við byrjum að utan og vinnum okkur inn eftir.“

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.