Það er ekki á hverjum degi sem auglýst eru ný störf á Breiðdalsvík. Það eru hins vegar ánægjuleg tíðindi að Breiðdalshreppur hefur nú auglýst tvær stöður lausar vegna verkefnisins “Í fótspor Walkers.” Hreppurinn auglýsir eftir verkefnisstjóra jarðfræðiseturs og verkefnisstjóra ferða- og menningarmála. Umsóknarfrestur er til 3. mars.
Umsóknarfrestur um starf sveitarstjóra á Borgarfirði Eystri virðist enn ekki vera runnin út. Jakob Sigurðsson oddviti hreppstjórnar sagði í samtali við Austurgluggann í morgun að ekki væri búið að fjalla um umsóknir þær sem hafa nú þegar borist á fundi hreppstjórnar. “Það er kannski ekki alveg búið að loka á það.” Sagði Jakob í samtali við blaðamann í morgun, en hann hefur neitað að gefa upp nöfn umsækjanda á þeim forsendum að umsóknarfrestur sé ekki runninn út.
Staða sveitarstjóra á Borgarfirði var auglýst nú fyrir nokkrum vikum, en í auglýsingunni kemur ekkert fram um hvenær umsóknarfrestur rennur út. Blaðamaður spurði hvers vegna þannig væri staðið að málum og hvort það væri til þess að hægt væri að loka fyrir umsóknir þegar “rétta” umsóknin bærist. “Það var nú ekki hugmyndin. Við auglýstum þetta heimavið fyrst. Þetta var nú bara ákvörðun sem var tekin. Ég var í sambandi við Samband Sveitarfélaga vegna auglýsingarinnar og þar var ekki gerð athugasemd við þetta atriði.”
En finnst oddvitanum þessi stjórnsýsla vera til fyrirmyndar? “Það má deila um það.” sagði Jakob.
Jakob segir að á fundi næsta mánudag verði tekin ákvörðun um hvenær umsóknarfrestur rynni út. Því er ekki hægt að ætla annað en að enn um sinn sé opið fyrir umsóknir og því ástæða til að hvetja áhugasama um að sækja um starf sveitarstjóra á Borgarfirði.
Í frétt á vefsíðu Djúpavogshrepps kemur fram að blaðamaður Djúpavogshrepps varð var við all sérkennilega samkomu í brekkunni við grunnskólann þar í bæ. “Það kom á daginn að þarna var samankomin stjórn Súsúkífélagsins á Djúpavogi. Stjórnina skipa Kristján Guðmundsson, sem ekur um á Súsúkí Vítara og Pálmi Fannar Smárason en hann ekur um á Súsúkí Sædkikk. Tilefni fundarins var nýr meðlimur í félaginu en sá hafði fest kaup á forláta Súsúkí Vítara bifreið, árgerð 1988, áður í eigu Þóris Stefánssonar hótelstjóra. Sumir telja að kaupverðið hafi verið langt yfir markaðsverði, en flestir eru þó sammála um að kr. 1.780.000.- sé sanngjarnt verð, en það er einmitt upphæðin sem hinn stolti kaupandi, Óðinn Sævar Gunnlaugsson, borgaði fyrir gripinn.” segir í fréttinni.
Ekki fer sögum um hvort Ólafi Ragnari úr Næturvaktinni hafi verið boðið að gerast heiðursfélagi í klúbbnum, en hann er jú þekktur fyrir að eiga Suzuki jeppa sem hann kallar “Læðuna”.
Þrír umsækjendur eru um starf sveitarstjóra í Borgarfirði eystra. Á hreppsnefndarfundi í gær var ákveðið að umsóknarfresturinn væri liðinn og verður ekki tekið við fleiri umsóknum. Umsækjendurnir verða boðaðir til viðtals síðar í vikunni.
Umsækjendur:
Ásta Hrönn Björgvinsdóttir, Akureyri.
Ásta Margrét Sigfúsdóttir, Borgarfirði eystra.
Jón Þórðarson, Akureyri.
Eins og áður hefur komi fram mun Steinn Eiríksson fráfarandi sveitarstjóri ljúka störfum eins fljótt og honum er kostur, vegna anna í fyrirtæki sínu Álfasteini.
Bilaðar bremsur voru aðalástæða þess að rúta með
38 farþegum fór út af í Bessastaðafjalli í lok ágúst. Þetta kemur fram í skýrslu
Rannsóknarnefndar umferðarslysa sem kom út í dag.
Aron Daði Þórisson,
nemandi í 10. bekk Grunnskóla Djúpavogs, vann til fyrstu verðlauna í ritgerðarsamkeppni
sem Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni efndu til. Verðlaunin voru afhent
við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu í dag. Yfirskrift verkefnisins er „Heimabyggðin
mín“.