Suzuki veður á Djúpavogi "læðunum" stillt upp
Í frétt á vefsíðu Djúpavogshrepps kemur fram að blaðamaður Djúpavogshrepps varð var við all sérkennilega samkomu í brekkunni við grunnskólann þar í bæ. “Það kom á daginn að þarna var samankomin stjórn Súsúkífélagsins á Djúpavogi. Stjórnina skipa Kristján Guðmundsson, sem ekur um á Súsúkí Vítara og Pálmi Fannar Smárason en hann ekur um á Súsúkí Sædkikk. Tilefni fundarins var nýr meðlimur í félaginu en sá hafði fest kaup á forláta Súsúkí Vítara bifreið, árgerð 1988, áður í eigu Þóris Stefánssonar hótelstjóra. Sumir telja að kaupverðið hafi verið langt yfir markaðsverði, en flestir eru þó sammála um að kr. 1.780.000.- sé sanngjarnt verð, en það er einmitt upphæðin sem hinn stolti kaupandi, Óðinn Sævar Gunnlaugsson, borgaði fyrir gripinn.” segir í fréttinni.
Ekki fer sögum um hvort Ólafi Ragnari úr Næturvaktinni hafi verið boðið að gerast heiðursfélagi í klúbbnum, en hann er jú þekktur fyrir að eiga Suzuki jeppa sem hann kallar “Læðuna”.
Mynd: www.djupivogur.is