Landsbankinn hefur nú lagt fram upplýsingar sem hann neitaði AFLi Starfsgreinafélagi og öðrum viðskiptavinum um í byrjun nóvember síðastliðnum. AFL stefndi bankanum og Landsvaka, peningamarkaðsfyrirtæki bankans í kjölfarið og krafðist ýtarlegra gagna um viðskipti síðustu vikur fyrir lokun sjóðsins, upplýsinga um verkferla og möguleg innherjaviðskipti síðust vikur sjóðsins.
Launafl í Fjarðabyggð hefur gefið Hjálparstofnun kirkjunnar fé til kaupa á tveimur vatnsbrunnum. Magnús H. Helgason, framkvæmdastjóri Launafls og Ágúst Sæmundsson, rafvirkjameistari, afhentu kirkjunni á Reyðarfirði ávísun að andvirði 260 þúsund króna rétt fyrir helgi. Þá stendur til að Launafl, Alcoa og Vélsmiðja Hjalta styrki Verkmenntaskólann í Neskaupstað um tólf milljónir króna samtals til tækjakaupa.
Á morgun, mánudag, ætlar Alcoa að greiða starfsmönnum Fjarðaáls kaupauka. Hann mun nema mánaðarlaunum, að viðbættu 15% álagi. Áður höfðu Ísal og Norðurál greitt aukalega kaupauka á síðustu vikum. Launaliður samnings AFLs starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál verður næst laus í apríl nk.
Undanfarnar vikur hefur hreindýr haldið sig í Hellinum (eyjunni) sem er við innsiglinguna til Hornafjarðar og er talið líklegt að það hafi synt yfir álinn frá Austurfjörum þar sem nokkur hreindýr hafa verið á beit undanfarið.
AFL Starfsgreinafélag hefur stefnt Landsbanka Íslands og Landsvaka fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. AFL, sem tapaði um 170 milljónum króna í Landsbankanum í bankahruninu, krefst sundurliðaðs yfirlits yfir eignir peningamarkaðssjóða Landsbankans í september og október nú í haust. AFL segir lög Alþingis um bann við málsókn á hendur bönkum og fjármálafyrirtækjum í greiðslustöðvun ekki standast og að ekki verði brotin bankaleynd þó þær upplýsingar sem krafist er verði veittar.
Körfuknattleikslið Hattar tapaði tveimur leikjum í seinustu
útleikjaferð sinni um helgina. Liðið lenti fyrst í Íslandsmeisturum
Keflavíkur í bikarkeppni karla og síðan í KFÍ á Ísafirði.
Kjarasamningar hafa verið undirritaðir milli AFLs starfsgreinafélags og Launanefndar sveitarfélaga, fyrir hönd sveitarfélaganna tíu á Austurlandi. Samningurinn gildir frá 1. desember en eldri samningur rann út 30. nóvember síðastliðinn. Samningurinn er í anda þeirra samninga sem launanefndin hefur gert við aðra samningsaðila. Kynningar og atkvæðagreiðsla um samninginn fara fram í vikunni.