Strokulaxar og löngu Gosanefin
Eftir síðustu slysasleppingu mættu Framkvæmdastjórar Arctic Fish og SFS í fjölmiðla og sögðu að villtum laxastofnum stafaði engin ógn af sjókvíaeldi. Þau segja að tekist hafi að búa til kerfi, sem muni vernda villtu laxastofnana. Þar eiga þau við bæði burðarþols- og áhættumat erfðablöndunar, sem eiga að tryggja það að fiskeldið verði ekki í því magni að villtum laxi stafi ógn af.Í svörtu skýrslu Ríkisendurskoðanda segir hins vegar:
„Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi veikburða og brotakennt.“
„Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og dæmi eru um að uppbygging sjókvíaeldis skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og við hvíta ljósgeira siglingavita.“
„Hafrannsóknarstofnun átti að ákvarða eldissvæði, innan þeirra svæða sem væru burðarþolsmetin hverju sinni, sbr. 6. gr. b. laga nr. 71/2008.“
„Að sögn Hafrannsóknastofnunar er skipting í eldissvæði flókin í framkvæmd þar sem staðsetning svæðanna verður að taka tillit til áhrifa frá annarri starfsemi og öðrum umhverfisþáttum sem burðarþolsmatið hefur ekki endilega tekið á. Þá hafi Skipulagsstofnun gert ákveðnar kröfur á svæðisskiptingavinnuna sem Hafrannsóknastofnun telur sig ekki geta mætt miðað við núgildandi fjármögnun og mönnun enda sé stofnunin ekki eiginleg stjórnsýslustofnun.“
Ríkisendurskoðandi bendir á galla í burðarþolsmati og Hafrannsóknarstofnun hefur viðurkennt þá. Laxeldisfyrirtækin ráða, setja kvíar innan 5 km frá árósum og jafnvel þvert fyrir þá. Lítið sem ekkert samráði var við landeigendur. Þetta getur ekki talist gott kerfi til að vernda villta laxfiska.
„Fyrsta áhættumat erfðablöndunar sem unnið var af Hafrannsóknastofnun var kynnt árið 2017. Áhættumatið var svo endurskoðað árið 2020 en lög segja til um að áhættumatið skuli endurskoðað á þriggja ára fresti.“ Eða eins oft og þurfa þykir.
Hafrannsóknastofnun vann áhættumatið 2020 og fékk til þess styrk frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis.
„Við uppfærslu matsins árið 2020 var aukning á lífmassa niðurstaðan í uppfærðu áhættumati.“
„Stór hluti þeirrar aukningar kom til þar sem Hafrannsóknastofnun ákvað að notast við lífmassa í stað hámarksframleiðslu við útgáfu eins og gert var í fyrsta áhættumatinu. Við þessa breytingu ákvað Hafrannsóknastofnun að nota stuðullinn 0,8:1 sem þýðir um 800 tonn af framleiðslu á móti 1.000 tonnum af lífmassa. Var áhættumatið því uppfært til hækkunar sem þessu nam. Í skýringum Hafrannsóknastofnunar kom fram að við ákvörðun stuðulsins hefði verið horft til reynslu úr sjókvíaeldi hér á landi á síðustu árum. Reyndin er hins vegar sú að samkvæmt reynslu síðustu ára hefði stuðullinn fremur átt að vera nær 1:1. Einnig kom fram við úttekt Ríkisendurskoðunar að stuðullinn væri í reynd kominn frá hagsmunaaðilum úr greininni. Ekki tókst að staðfesta að svo væri en að mati Ríkisendurskoðunar verður notkun stuðla og reikniregla að byggja á öruggum og staðreyndum upplýsingum úr fiskeldi hér við land. Það að Hafrannsóknastofnun hafi ekki með skýrari hætti getað rökstutt val sitt á ofangreindum stuðli er áhyggjuefni.“
„Athygli vekur að Hafrannsóknastofnun hefur ekki fengið fasta fjármögnun til burðarþolsrannsókna og vöktunar af fjárlögum heldur hefur stofnunin þurft að sækja um styrki fyrir þeim í Umhverfissjóðinn.“
„Komið hefur fyrir að sjóðurinn hafi hafnað umsókn Hafrannsóknastofnunar um styrk vegna gerðar burðarþolsmats.“
„Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að Hafrannsóknastofnun hafi fasta fjármögnun vegna burðarþolsrannsókna og vöktunar.“
Einhverra hluta vegna er áhættumat erfðablöndunar ekki enn komið út fyrir árið 2023. Um það er fjallað í grein á Heimildinni.
Áhættumat erfðablöndunar þarf að taka tillit til minni laxastofna og annarra laxfiska, eins og Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur bendir á.
Laxastofnum fórnað fyrir sjókvíaeldi á laxi? Það má ekki murka lífið úr þeim smærri frekari en þeim stærri eins og Jóhannes bendir á í þessari grein.
Í skrifum Valdimars Inga Gunnarssonar sjávarútvegsfræðings hefur hann fjallað ítarlega um áhættumat erfðablöndunar. Greinarnar eru allar á slóðinni https://lagareldi.is/fiskeldi/ahaettumat-erfdablondunar/.
Í greininni „Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst“ segir hann t.d.: „Það er raunar með nokkrum ólíkindum að veitt sé lagaheimild fyrir því að erfðablanda megi villtan íslenskan lax.“
Öll þessi greinaskrif sýna að sjókvíaeldið er ekki í sátt við náttúruna eins og sagt var í Kastljósinu. Hún hefur algerlega verið látin víkja fyrir sjókvíaeldi. Erfðablöndun er löngu hafin, eyðileggingin er aldrei réttlætanleg.
Í Kastljósi talaði Heiðrún Lind framkvæmdastjóri SFS einnig um að byggja ætti sjókvíaeldi upp í sátt við samfélagið. Sáttaleiðin var í raun aldrei inni í myndinni hjá laxeldisfyrirtækjunum. Þau þurftu bara að græða og það sem fyrst, því norsku eigendurnir óttast að tími sjókvía sé senn á enda á Íslandi.
Það þýðir ekkert fyrir framkvæmdastjóra SFS að kalla eftir sátt núna þegar allt er komið í óefni. Samkvæmt skoðanakönnun frá því í mars s.l. var 61% landsmanna á móti sjókvíaeldi.
Á Seyðisfirði eru 75% íbúa á móti sjókvíaeldi, sem á að troða á í þröngan fjörðinn. Það er ekki vegna þess að við höfum áhyggjur af „nýrri“ atvinnugrein, sem við þekkjum ekki til. Seyðfirðingar og aðrir Austfirðingar þekkja sjókvíaeldi frá fyrri tíð. Seyðfirðingar hafa fylgst náið með núverandi sjókvíaeldi á Austfjörðum. Myndir frá Reyðarfirði sýna stórfellt tjón og laxadauða vegna vetrarsára. . Norwegian Gannet slátraði á Reyðarfirði eftir að eldislaxar sýktust af blóðþorra.
Við viljum ekki þessa verksmiðjuframleiðslu í fjörðinn okkar, sem setur náttúruna og aðra atvinnustarfssemi í honum í hættu. Auk þess tekur áhættumat ekki tillit til Fjarðarár, sem fóstrar laxastofn og einn stærsta sjóbleikjustofn landsins.
Heiðrún Lind sagði í Kastljósi: „Það er ekki um það deilt að áhrifin á þau byggðarlög sem að þurfi svo sannarlega á því að halda að fá tekjur, að fá bara lífsvon um að þau ættu sér viðreisnarvon á Vestfjörðum og Austurlandi.“
Gættu orða þinna kona góð. Framkoma þín í Kastljósi einkenndist af rangfærslum og hroka. Þú talar eins og Vestfirðingar og Austfirðingar hafi verið einhverjir þurfalingar, sem áttu sér hvorki lífs- né viðreisnarvon fyrr en laxeldisfyrirtækin komu „færandi hendi“, með þessa sóðalegu matvælastóriðju í kvíum, sem plantað var í firðina í óþökk margra. Sjókvíaeldið er úrelt og óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Þessi fyrirtæki eru ekki hér af góðmennsku. Það er gróðafíknin, sem stýrir þeim.
Vissulega stóðu einhver byggðarlög höllum fæti eftir að hafa misst fiskveiðikvótann. Sjávarauðlindin er á fárra höndum, og blómlegum sjávarbyggðum var fórnað víða um land. Og enn er verið að fórna auðlindinni fyrir sjókvíaeldi milljarðamæringa, en reynt að telja okkur trú um að þetta sé fyrir þjóðina.
En það er ekki allt gull sem glóir. Fyrirsögn í grein á Heimildinni: „Það verður ekkert eftir hér í sveitarfélaginu“
Hér er grein á Heimildinni „Fimm seldu í laxeldisfyrirtæki á Ísafirði fyrir 2,3 milljarða.“ Þar er því lýst hvernig 11,4 milljarðar fóru beint úr landi til erlendra braskara. Samfélagið fær ekkert fyrir auðlindina.
Það er ekki boðlegt að mæta í Kastljós og fullyrða að villtum laxastofnum standi ekki ógn af sjókvíaeldi því að kerfið sé svo gott. Allra síst í ljósi nýjustu frétta. Nærri þrjátíu strokulaxar eru til rannsóknar hjá Hafró og fleiri væntanlegir. Erfðablöndun er hafin skv. upplýsingum Hafrannsóknastofnunar í grein hjá Fiskifréttum. Þar segir: „Eldri erfðablöndun var mest áberandi í Breiðdalsá og greindist í 32 prósent (72 af 228) seiðanna“ og í lokin „Niðurstöðurnar sýna að erfðablöndun hefur orðið við hlutfallslega lítið eldismagn.“
Náttúruverndarsamtök hafa verið að benda á skýrslur vísindamanna, fréttaflutning og staðreyndir frá öðrum löndum. Það lágu öll rök og staðreyndir á borðinu fyrir því að stjórnvöld áttu að gera betur og koma í veg fyrir þann umhverfisskaða, sem orðinn er. Hvað gera stjórnvöld nú þegar þau eiga bara einn kost? Meirihluti þjóðarinnar er á móti þessu og á rétt á að heyra frá umhverfis-, matvæla- og innviða/skipulagsráðherra hvernig þau ætla að bregðast við.
Hvað fær örfáa Íslendinga, sem öllu virðast ráða, til að vaða með vanvirðingu yfir allt og alla fyrir norska milljarðamæringa? Auðlindin er okkar allra, þetta er ekki verjandi.
Eyðileggingin er aldrei réttlætanleg.
Takið niður löngu Gosanefin.
Höfundur er brottfluttur Seyðfirðingur