Orkumálinn 2024

Tíu ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps í Neskaupstað

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Sigurði Sigurðarsyni og dæmdi hann til 10 ára fangelsisvistar fyrir að hafa margsinnis stungið mann í Neskaupstað í fyrra. Héraðsdómur Austurlands hafði áður dæmt hann til 6 ára fangelsisvistar.

Ríkissaksóknari ákvað að skjóta málinu til Landsréttar í því skyni að fá refsingu ákærða þyngda og byggði á því að refsing ákærða hafi í hinum áfrýjaða dómi verið ákveðin verulega of væg með vísan til atvika og taldi ljóst að ásetningur Sigurðar hefði staðið til að bana fórnarlambi sínu.

Árásin átti sér stað í júlí síðastliðnum, en Sigurður fór þá inn á heimili annars manns í Neskaupstað og stakk hann ítrekað með tveimur hnífum sem hann hafði meðferðis. Fórnarlambið komst undan á flótta og náði að kalla eftir aðstoð. Eftir að lögregla kom á vettvang var Sigurður handtekinn skammt frá vettvangi árásarinnar. Austurfrétt hefur áður fjallað um málsatvik og dóm Héraðsdóms Austurlands í málinu.

Landsréttur tók í dómi sínum undir forsendur héraðsdóms hvað varðar sakfellingu fyrir tilraun til manndráps. Hvað varðar þyngd refsingarinnar segir Landsréttur hins vegar að héraðsdómur hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til þess við mat á refsingu hve ásetningur Sigurðar til að bana fórnarlambi sínu hafi verið einbeittur.

„Gögn málsins bera ótvírætt með sér að atlaga ákærða var lífshættuleg og réð hending því ein að ekki hlaust bani af. Þegar horft er til framangreinds verður lagt til grundvallar að atlagan hafi verið með þeim hætti að það hafi verið beinn ásetningur ákærða að brotaþoli biði bana af,“ segir í dómi Landsréttar, sem með hliðsjón af þessu ákvað að 10 ára fangelsi væri hæfileg refsing. Frá dómnum dregst gæsluvarðhaldsvist frá 11. júlí í fyrra.

Að auki var Sigurður dæmdur til greiðslu áfrýjunarkostnaðar, þar á meðal málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, alls kr 1.920.004. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu tvær og hálfa milljón króna í miskabætur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.