Björn Ingimarsson áfram í verkefnum fyrir Múlaþing eftir afsögn sem sveitarstjóri
Sveitarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, mun áfram sinna verkefnum fyrir hönd sveitarfélagsins eftir að setu hans á sveitarstjórastóli lýkur um áramótin. Sú staðreynd kom flatt upp á ýmsa fulltrúa í sveitarstjórn.
Björn tilkynnti sveitarstjórn um afsögn sína úr embætti sveitarstjóra um miðjan september og mun hætta því starfi formlega um áramótin. Það er á sama tímapunkti og hann fagnar sjötugsaldrinum en Björn hefur starfað sem sveitar- og hafnarstjóri Múlaþings allar götur frá árinu 2020.
Vitað var, og það samkvæmt ráðningarsamningi, að Björn mun eyða tveimur til þremur mánuðum eftir áramót að skóla til nýráðinn sveitarstjóra í málefnum sveitarfélagsins en Dagmar Ýr Stefánsdóttir hlaut ráðningu í það starf frá og með áramótum síðla í október.
Björn gaf þó kost á sér til stjórnarsetu í Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum fáeinum vikum eftir afsögn sína og var valinn í stjórn þeirra samtaka þann 9. október.
Í svarskeyti vegna fyrirspurnar Austurfréttar segir Björn að það framboð og stjórnarseta hafi verið með samþykki og samráði sveitarstjórnar Múlaþings. Verið geti að hann muni taka að sér fleiri verkefni fyrir sveitarfélagið en ekkert frekar verið ákveðið.
Þrír sveitarstjórnarmenn; Helgi Hlynur Ásgrímsson, Þröstur Jónsson og Hildur Þórisdóttir komu þó af fjöllum aðspurð út í verkefni Björns eftir brotthvarf hans úr sveitarstjórastarfinu svo ekki er rétt að samráð hafi verið haft við alla sveitarstjórnina.
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, segir ljóst að Björn verði eitthvað áfram að störfum fram á næsta ár til að koma Dagmar Ýr inn í fjölda viðamikilla mála sem sveitarstjóri hefur á sínum höndum og þarf hafa góða þekkingu á.
„Björn hefur setið fyrir okkar hönd í þessum ákveðnu samtökum í nokkur ár og þekkir allt það umhverfi vel. Þau samtökin hafa verið að ná fótum á ný eftir að þar var lítil starfsemi árum saman. Hann gaf kost á sér í stjórn og mun sitja í þeirri stjórn út kjörtímabilið. Annað er óráðið á þessari stundu og liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti. Meira mun liggja fyrir þegar við vitum fyrir víst hvenær nýr sveitarstjóri kemst til starfa.“