128 mm úrkoma á einum sólarhring

Úrkoman undanfarinn sólarhring á Gilsá í Breiðdal mældist 128 mm sem er það næst mesta á þeim 20 árum sem úrkoma hefur verið mæld þar. Þetta er annað skiptið í vikunni sem slík úrkoma mælist þar.

„Það er allt á floti hérna. Maður hefur ekki oft séð Norðurdalsána breiða svona úr sér þegar maður horfir á hana í grámóðskunni út um gluggann,“ segir Helga Pálína Harðardóttir, veðurathugunarmaður á Gilsá.

Klukkan níu á morgnana athugar Helga Pálína hve mikil úrkoma hefur fallið þar síðustu 24 tímana en þeir mynda svokallaðan úrkomusólarhring. Á sunnudagsmorgun mældust 110 millimetrar sem voru það næst mesta sem fallið hafði þau 20 ár sem Helga Pálína hefur fylgst með veðrinu þar.

Í morgun bætti um betur því úrkoman frá því klukkan níu í gærmorgun var 128 millimetrar. Mesta úrkoma sem mælst hefur á Gilsá eru 160 mm.

Samanlögð úrkoma þar síðustu níu daga er 260-270 millimetrar. Þar áður hafði mesta úrkoma mánaðarins verið 28,7 millimetrar. Til samanburðar má nefna að úrkoman í ágústmánuði var 23 mm. „Hún var óvenju lítil en samt ekki það minnsta sem við höfum séð hér á mánuði.“

Helga Pálína segir að heldur hafi dregið úr úrkomunni í morgun. „Maður heyrði í gegnum svefninn þvílíkar dembur bylja á húsinu en það er klætt að utan. Þetta er svona norðaustan rigning sem stóð upp á stafninn að utanverðu.“

Rigningin um helgina setti strik í reikninginn í göngum í Breiðdal. Ekkert var smalað laugardag og sunnudag en farið var af stað aftur á mánudag. Ekki var þó hægt að komast upp í Tinnudal út af vexti í samnefndri á sem fellur úr dalnum.

„Þetta átti að vera stóra smalahelgin okkar. Það er ömurlegt að fylgjast með skepnunum úti og geta ekkert gert. Ég er bara fegin að þetta er ekki snjór.“

Innar í Norðurdalnum rekur Sigurður Borgar Arnaldsson ferðaþjónustu á bænum Skarði. Hann segir veginn upp dalinn nokkuð skemmdan eftir vatnavextina. Hann segist hafa ráðlagt gestum sínum að leggja bílunum neðan við hlið þannig þeir verði ekki fastir á hlaðinu við bæinn en vegurinn hefur nokkrum sinnum skemmst í vatnavöxtum.

Myndir teknar innan við bæinn Kleif og af skemmdum á veginum í Þorvaldsstaði fyrir hádegið. Sigurður Borgar Arnaldsson.

Breiddalur 22070208 10154946924193388 222652980 O
Breiddalur 22070264 10154946924683388 1070291691 O
Breiddalur 22070266 10154946924638388 255354146 O
Breiddalur 22092637 10154946924388388 1125339160 O
Breiddalur 22118029 10154946924528388 911112435 O


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.