1. maí: Við getum sagt við viljum ekki svona samfélag

afl atkvaedagreidslaLaunþegar verða að hugsa út í hvers konar samfélag þeir vilja sjá mótast á Íslandi. Þeir hafa tækifæri til þess í gegnum kjarasamninga. Umræðan um vaxandi ójöfnuð í íslensku samfélagi var inntak 1. maí ávarps AFLs starfsgreinasambands.

„Samfélag fyrir alla" var yfirskrift Alþýðusambandsins í dag. „Verkalýðsbarátta snýst um betra samfélag fyrir alþýðufólk og hvernig við getum nýtt okkur samtakamáttinn til að bæta kjör okkar," sagði í ávarpi AFLs sem flutt var á hátíðarhöldum félagsins víðs vegar um fjórðunginn í dag.

„Verkalýðsbarátta snýst ekki um foringja og ekki um það hver hefur rétt fyrir sér eða hver sagði hvað og við hvern og hvenær.

Einstaklingar eru bara lítil korn í á spjöldum sögunnar og flest okkar sem erum í framvarðarsveitinni verðum gleymd eftir nokkur ár. En þegar við náum árangri - verður hann til frambúðar. Það er það sem skiptir máli – ekki hver sagði hvað og hver er frægastur í dag. Stundarfrægð er skammgóður vermir. Og frægðin kemur ekki í launaumslögin."

Veturinn sem er að verða liðinn einkenndist af samningamálum og hluti kjarasamninga AFLs voru felldir. Í ávarpinu segir að samningarnir í vetur hafi verið undanfarar víðtækari langtímasamnings en hann sé í uppnámi.

„Í dag er tekist á um mörg grundvallaratriði samfélagsins og verkalýðshreyfingin verður að standa sameinuð vörð um helstu gildi velferðarsamfélagsins. Það eru engir aðrir til þess."

Hvers konar samfélag er það sem lætur sjúkradeildir standa auðar vegna manneklu?

Bent var á að misskipting hefði farið vaxandi í samfélaginu á ýmsum sviðum. Fleiri hafa ekki efni á að leita sér læknis, fjölskyldur hrekjast á milli leiguhúsnæðis, unglingar falli úr framhaldsskólum sökum tekjuskorts.

Forráðamenn AFLs vilja samt meina að aðalspurning dagsins sé sú sama og reynt var að svara þegar fyrsta stéttarfélagið var stofnað á Austurlandi fyrir rúmum 100 árum. „Hvernig samfélag viljum við og erum við tilbúin til að berjast fyrir því? Viljum við samfélag sem byggir á félagslegum gildum eða viljum við græðgisvæða allt? Hafa þeir sem græða mest alltaf rétt fyrir sér og viljum fórna hverju sem er fyrir gróða?

Hvers konar samfélag er það sem lætur sjúkradeildir standa auðar vegna manneklu – lætur byggingar grotna niður í viðhaldsleysi og sendir á sama tíma þúsundir manna á eyðimerkurgöngu atvinnuleysis? Og sú þrautaganga er ekki létt – fólkinu sem minnstu menntuna hefur og skólakerfið brást – er hafnað aftur og aftur og sér ekki til sólar í lífinu. Á sama tíma tilkynna útgerðarfélög og fjármálageirinn um methagnað. Er það samfélagið sem við viljum.

Viljum við samfélag sem ber sig saman við Norðurlöndin hvað varðar skiptingu þjóðarauðsins eða viljum við horfa til spilltustu ríkja þriðja heims þar sem misskiptingin er hvað rosalegust. Þar sem þeir ríku verða sífellt ríkari og þeir fátæku fátækari."

Hverjar eru séríslenskar aðstæður?

Minnt var á að kjarasamningar væru tækifæri verkalýðshreyfingarinnar til að hafa áhrif á samfélagsmótunina.

„Við getum í kjarasamningum þar sem ríkisvaldið hefur aðkomu – sagt „við viljum ekki svona samfélag" – við getum sagt – „við okkur verður ekki sátt nema að við tryggjum sómasamlega tilveru allra – að við tryggjum viðunandi húsnæðiskosti fyrir alla og við tryggjum það að hér verði þeir fátækustu ekki sífellt fátækari og æ vonlausari um betri tíð."

Svo virðist sem íslenskt samfélag sé aftur að sækja í svipaðar áttir og fyrir bankahrunið. „Bónusar og kaupaukar og innbyrðis hlutabréfafléttur eru aftur orðinn hluti fjármálakerfisins – þess sama kerfis og hrundi með stærstu gjaldþrotum mannkynssögunnar fyrir 6 árum. Þetta var helsjúkt kerfi og það er lítið betra í dag.

Íslenskir fjármálamenn eru ekki snillingar og það er kominn tími til að þjóðin segi þeim það. Það eru ekki erlendir bankamenn sem þurfa endurmenntun – heimurinn er ekki allur sameinaður á móti okkur – það er svo ótal margt sem er að hjá okkur en við neitum að horfast í augu við. Við kennum bara útlendingum um og segjum að þeir skilji ekki séríslenskar aðstæður.

En hverjar eru séríslenskar aðstæður – eru það náttúruauðæfin eða sú staðreynd að við búum við lakasta kaupmátt allra þjóða í norður Evrópu. Er það náttúrufegurðin eða sú staðreynd að við búum við svo lítinn gjaldmiðil að það er hvergi í heiminum litið á hann sem ígildi peninga nema í sérstökum bönkum og á gengi sem handstýrt er frá Seðlabankanum.

Séríslenskar aðstæður í dag eru þær að heilbrigðisstarfsfólk og iðnaðarmenn hafa flúið land þúsundum saman og lifa og starfa á Norðurlöndunum. Það eru séríslenskar aðstæður að við getum ekki flutt peninga milli landa nema sækja um það sérstaklega og fá leyfi. Það eru séríslenskar aðstæður."

Ekki nóg að bölva verkalýðshreyfingunni eða fjórflokknum

Forsvarsmenn AFLs segja að til að ná fram breytingunni verði launþegar sjálfir að grípa til sinna ráða.

„Það er ekki nóg að bölva verkalýðshreyfingunni eða hinum svokallaða fjórflokki – við verðum öll að líta í eigin barm. Erum við sátt við þá leið sem samfélagið er á? Og ekki síst – erum við til í að taka saman höndum til breyta þessu – viljum við vinna til þess að koma á alvöru velferðarsamfélagi?

Á tyllidögum tala ráðamenn um hið ríka Ísland – um náttúruauðæfin og að hér drjúpi smjör af hverju strái. Þegar kemur að því að útdeila þessum auðæfum er komið annað hljóð í strokkinn. Þá eru náttúruauðæfin frátekin og komin í einkaeigu.

Það er kominn tími á að endurhugsa þetta. Sáttin sem við héldum að væri komin á um samfélag fyrir alla er í uppnámi. Við verðum að spyrna við fótum og snúa þróuninni við. Samfélagið á að vera fyrir fólkið en ekki fjármálafyrirtækin. Laun eiga ekki að vera afgangsstærð í samfélaginu."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar