Yfir tuttugu milljónir austur í framkvæmdir á ferðamannastöðum

storurd keppni 0004 webRúmlega 23 milljónum var veitt til framkvæmda við þrjár austfirskar náttúruperlur, Teigarhorn, Stórurð og Hengifoss, þegar úthlutað var úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir helgi. Styrkir voru á meðal þeirra tíu stærstu sem veittir voru en alls var úthlutað til fimmtíu verkefna að þessu sinni.

Djúpavogshreppur fékk 11,6 milljónir til vinnu við Teigarhorn. Styrkurinn á að nýtast til gerð deiliskipulags, uppbyggingu stíga, merkinga og endurbóta á húsakosti. Markmið styrkveitingar er að styðja við þróun staðarins sem fólkvangs og stuðla að markvissri nýtingu staðarins til útivistar.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað fékk tíu milljónir til gerðar deiliskipulags, stígagerðar, smíði skilta, vegvísa og merkingu gönguleiða í kringum Dyrfjöll og Stórurð. Þar með verður haldið áfram með niðurstöður hugmyndasamkeppni sem haldin var í fyrra en markmið styrkveitingar er að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna á sama tíma og unnið er úr frumlegri hönnun vinningshafa úr hugmyndasamkeppni.

Þá hlaut Fljótsdalshreppur 2,3 styrk til að gera deiliskipulag, stíga og bæta úr öryggi ferðamanna við Hengifoss. Styrkveitingin er liður í því að byggja upp náttúrutengda ferðaþjónustu svæðisins.

Alls var úthlutað 244 milljónum króna. Hæsti styrkurinn var 29,7 milljónir. Samtals var óskað eftir styrkjum upp á 848 milljónir króna. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum.

Verðlaunatillaga fyrir Stóruð kynnt. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar