Fjarðalistinn stærstur: Miklar sveiflur á fylgi

fjardalisti topp5 mars14Fjarðalistinn mælist með tæplega 40% fylgi í Fjarðabyggð í skoðanakönnum sem birt var í dag. Listinn vinnur mann af Sjálfstæðisflokki en meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heldur. Töluverðar sveiflur virðast á fylgi.

Félagsvísindastofnun gerði könnunina fyrir Morgunblaðið sem birti hana í morgun. Blaðið gerði áður könnun um miðjan janúar.

Fjarðalistinn mældist með 39,7% fylgi, næstum helmingi meira en í janúar en flokkurinn fékk um 31% í kosningunum 2010. Miðað við þetta myndi listinn fá fjóra menn í bæjarstjórn en hefur þrjá í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn er með 30,7%, svipað og í janúar en hann fékk 40% í kosningunum. Flokkurinn er með þrjá menn í bæjarstjórn en myndi tapa einum manni yrðu þetta kosningaúrslitin.

Framsóknarflokkurinn fengu 28%, sem er svipað og fyrir fjórum árum en litlu minna í janúar. Flokkurinn heldur sínum tveimur bæjarfulltrúum.

Í janúar var spurt um stuðning við Bjarta framtíð og Pírata en fyrrnefnda framboðið mældist þá með mann í bæjarstjórn. Fylgi annarra flokka frá janúar fer úr 14% niður í 1,7%. Ekki er útlit fyrir að þær hreyfingar bjóði fram í sveitarfélaginu í vor.

Í greiningu kemur fram að stuðningsmenn Bjartrar framtíðar og Pírata á landsvísu hallast flestir að Fjarðalistanum. Fjarðalistanum helst best á stuðningsmönnum frá síðustu kosningum. Listinn vinnur einnig fylgi frá Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokkur vinnur fylgi frá Sjálfstæðisflokki.

Rúm 50% kvenna styðja Fjarðalistann en 37% karla velja Sjálfstæðisflokkinn. Tekjuhærri kjósa helst Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn en háskólamenntaðir frekar Fjarðalistann. Rúm 40% kjósenda á aldrinum 18-30 ára velja Sjálfstæðisflokkinn en helmingur kjósenda yfir sextugu styður Fjaðalistann.

Svarendur voru 370 talsins. Skekkjumörk eru há eða um 6% á hvern lista.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar