SSA: Stjórnvöld verða að koma að málefnum sjávarbyggða á Austurlandi

ssa thingmenn april14 0060 webStjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi vill að stjórnvöld beiti sér í málefnum sjávarbyggða á Austurlandi. Jafnframt vill hún að þingmenn fundu með bæjarstjórn Seyðisfjarðar og forsvarsmönnum Smyril-Line til að ræða ferjumál á Seyðisfirði.

Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á stjórnarfundi SSA í síðustu viku. Fundurinn var haldinn á Djúpavogi en sveitarstjórnin þar hefur undanfarið óskað eftir að stjórn SSA kynni sér aðstæður eftir að tilkynnt var að til stæði að loka fiskvinnslu Vísis á staðnum. Stjórnin notaði ferðina og heimsótti vinnslu Vísis.

Í bókun SSA er tekið undir áhyggjur heimamanna í atvinnumálum. „Í ljósi þess að bolfiskvinnsla hefur svo til lagst af í fjölda sjávarbyggða á Austurlandi undanfarin ár er það mat stjórnar SSA að stjórnvöld verði að koma að málefnum sjávarbyggða á Austurlandi með það að markmiði að tryggja atvinnu sem byggð er á traustum grunni til framtíðar."

Undir sömu bókun er komið inn á ferjumál á Seyðisfirði sem rædd voru á fundi með þingmönnum kjördæmisins í lok apríl. Þingmennirnir eru hvattir til að boða til fundar með bæjarstjórn Seyðisfjarðar og forsvarsmönnum Smyril Line líkt og þeir hafi boðað á fundinum í apríl. „Þegar af slíkum fundi verður óskar stjórn SSA eftir aðkomu að fundinum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar