Sýslumanns- og lögreglustjóraembætti sameinuð: Hvar lendir Höfn?

logregla syslumadursey heradsdomuraustGert er ráð fyrir að einn sýslumaður og einn lögreglustjóri verði yfir öllu Austurlandi miðað við frumvörp sem samþykkt voru á Alþingi í morgun. Ekki er gert ráð fyrir uppsögnum starfsmanna og ekki hefur verið ákveðið var embættin verða með aðsetur.

Með lögunum er embættum sýslumanna fækkað úr 24 í níu og lögregluumdæmum úr 15 í níu. Þá verður yfirstjórn lögreglu aðskilin frá yfirstjórn sýslumannsembætta. Breytingin tekur gildi 1. janúar næstkomandi.

Í dag eru sýslumenn á Seyðisfirði, Eskifirði og Höfn og lögreglustjórar á Egilsstöðum og Eskifirði. Í lögunum er gert ráð fyrir að einn sýslumaður og einn lögreglustjóri verði yfir öllu Austurlandi.

Umdæmamörkin hafa ekki verið ákveðin en þau ákveður ráðherra í reglugerð með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæmum og að höfðu samráði við lögreglustjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Þar verður ákveðið hvar aðalstöðvar embættanna verða og var lögreglustöðvar verða og aðrar sýsluskrifstofur.

Þær upplýsingar fengust úr innanríkisráðuneytinu að í megindráttum væri gert ráð fyrir að umdæmin fylgdu gömlu kjördæmaskipaninni. Óljóst er því hvað verður um embættið á Höfn en sveitarfélagið Hornafjörður tilheyrir í dag Suðurkjördæmi og vinnur með sveitarfélögum þar en tilheyrði áður Austfjarðakjördæmi og er undir lögreglustjóranum á Eskifirði.

Í greinargerð segir að tilgangurinn með sameiningunni sé að til verði „öflugri þjónustustofnanir sem standa betur að vígi til þess að sinna hlutverki sínu og taka að sér aukin verkefni. Með aðskilnaði yfirstjórnar lögreglu frá yfirstjórn sýslumannsembætta er lögreglustjórum gert kleift að sinna lögreglustjórn óskiptir í ljósi aukinna krafna sem gerðar eru til löggæslu. Með þessari breytingu er stefnt að því að til verði öflug lögreglulið sem njóti styrks af stærri liðsheild og verði hagkvæmari rekstrareiningar til lengri tíma litið."

Ekki er gert ráð fyrir uppsögnum starfsmanna þrátt fyrir hagræðingu í rekstri og gert er ráð fyrir að starfandi eða skipaðir sýslumenn njóti forgangs til skipunar í ný embætti sýslumanna.

Ekki eru þó allir á eitt sáttir um það. Í umsögn Páls Björnssonar, sýslumanns á Höfn, um frumvarpið lýsir hann þeirri skoðun sinni að einungis skipaðir sýslumenn skuli njóta forgangs. Þá telur mann mikilvægt að skipað verði í embættin öll á sama tíma og áður en nokkurt nýtt embætti verður stofnað.

Hann hvetur til þess að stofnuð verði sérstök nefnd sem með „málefnalegum og hlutlægum hætti" mæli með því við ráðherra hverja úr hópi núverandi sýslumanna skuli skipa í hin nýju embætti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar