Þrjátíu starfsmenn Vísis fóru suður til að skoða aðstæður
Tæplega 30 starfsmenn fiskvinnslu Vísis á Djúpavogi fóru með morgunflugi frá Egilsstöðum klukkan níu áleiðis til Grindavíkur til að skoða aðstæður þar. Vísir hyggst hætta bolfiskvinnslu á Djúpavogi í sumar og hefur boðið starfsmönnunum að flytjast suður.Hópurinn fór af stað rétt rúmlega sex í morgun frá Djúpavogi með rútu upp í Egilsstaði. Þeir starfsmenn sem Austurfrétt ræddi við á flugvellinum í morgun sögðu stemminguna í hópum „merkilega góða miðað við aðstæður."
„Við sjáum til," sagði einn þeirra aðspurður um hvernig honum litist á ferðina.
Í hópnum voru 28 starfsmenn af erlendum uppruna, þar af tvær fjölskyldur með börn auk íslensks fararstjóra.
Ekki þekktust allir boð Vísis um að fara og kynna sér aðstæður í Grindavík en nokkrir Íslendingar afþökkuðu það.
Gert er ráð fyrir að hópurinn komi aftur seinni partinn.
Hjá Vísi á Djúpavogi hafa starfað 50 manns. Tilkynnt var um áformin í lok mars. Gert er ráð fyrir að helmingur hópsins fái vinnu við þjónustu við Fiskeldi Austfjarða. Þar ganga þeir fyrir sem lengst hafa starfað á staðnum. Öðrum er boðin aðstoð við að koma sér fyrir í Grindavík þangað sem vinnslan flyst.