„Höfum sýnt tillitssemi og beðið en við gerum það ekki lengur"

kennarar fherad verkfall 0005 webGrunnskólakennarar á Fljótsdalshéraði inntu forsvarsmenn bæjarstjórnar eftir hvað þeir teldu vera eðlileg laun fyrir kennarastarfið á útifundi í gær. Forsvarsmenn bæjarstjórnar segja lítið svigrúm í fjárhag sveitarfélagsins til launahækanna.

Kennarar lögðu niður vinnu í gær til að vekja athygli á stöðu sinni en þeir hafa verið samningslausir í tvö ár. Þeir hafa einnig boðað vinnustöðvun 21. og 27. náist ekki samningar fyrir þann tíma.

Tæplega fjörutíu kennarar mættu á fundinn til að gera grein fyrir kröfum sínum. Þeir vilja að laun þeirra verði sambærileg við aðrar háskólastéttir og tekið verði tillit til þess að fimm ára háskólanám þarf nú til að öðlast kennararéttindi.

Kennararnir í gær lýstu meðal annars áhyggjum sínum af hægri endurnýjun í stéttinni sem væri að eldast. Þeir sögðust óttast flótta úr stéttinni yrði ekkert að gert.

„Það eru margir sem hafa hætt á undanförnum árum og enn fleiri sem eru að hugsa um að skipta um starfsvettvang.Það er erfitt að halda fjölskyldunni á floti á þessum launum," sagði einn fundarmanna.

Þeir minntust einnig á hvort samfélagið væri tilbúin að setja menntamál í forgang með því að veita til þeirra fjármunum. Þeir sem „passi peninga fá betur borgað en þeir sem passa börn. Starf mitt er ekki metið af samfélaginu Ísland."

Grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga fyrir tuttugu árum. Í gær var spurt hvort sveitarfélögin væru þess burðug að standa undir honum. Fjárskortur hamlaði víða starfi kennara. „Við erum stoppuð af í því sem við viljum gera og kunnum að gera því það er ekki til fjármagn."

Bæjarfulltrúar voru einnig spurðir hvort þeir væru tilbúnir að hefja sókn í skólamálum á Héraði til að laða að fleiri íbúa. „Bara blákalt: Við höfum ekki fjármagn í sértæka sókn þótt við vildum út af fjárhagslegri stöðu sveitarfélagsins," svaraði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar.

Hann og formaður bæjarráðs, Gunnar Jónsson, minntu á þrönga fjárhagsstöðu sveitarfélagsins vegna mikilla skulda. Þannig muni eitt prósentustig í verðbólgu 60 milljónum fyrir það. „Það skortir ekki skilning á kjörum kennara en sveitarfélögin verða að standa undir þeim. Við berum líka ábyrgð á að mönnum blæði ekki út," sagði Stefán en gert er ráð fyrir 3,5% launahækkun hjá sveitarfélaginu í fjárhagsáætlun.

Kennarar sögðust hafa sýnt þolinmæði í kjölfar hrunsins sem kom illa niður á fjármálum sveitarfélagsins. „Við erum líka íbúar í sveitarfélaginu og skiljum stöðuna en við erum þreytt á að óttast að við séum byrðar á samfélaginu. Við höfum sýnt tillitssemi og beðið en gerum það ekki lengur," sögðu kennararnir og spurðu bæjarstjórnarmennina meðal annars að því hvað þeir teldu eðlileg laun fyrir kennarastarfið.

Stefán Bogi svaraði að leitað væri leiða til að ná saman og um þá vinnu sæi samninganefnd sveitarfélaga. Það útheimti hins vegar vinnu á fleiri sviðum. Sú vinna hefur gengið þokkalega en samningar virðast helst stranda á launaliðnum.

„Ég vona að við þurfum ekki annan svona fund þótt það hafi verið ánægjulegt að sjá ykkur."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar