Afhenti Sigmundi Davíð undirskriftalista: Tilfinningin er að menn vilji reyna að hjálpa okkur

kristjan ingimarssonKristján Ingimarsson, íbúi á Djúpavogi, afhenti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra og fyrsta þingmanni Norðausturkjördæmis, í dag undirskriftarlista með nöfnum 150 íbúa Djúpavogshrepps út af þeirri stöðu sem upp er komin vegna lokunar fiskvinnslu Vísis á staðnum.

„Kaffið var gott," segir Kristján um móttökurnar sem hann fékk í Stjórnarráðinu í morgun. Honum var boðið inn þar sem hann fundaði með Sigmundi Davíð og aðstoðarmanni hans í um tíu mínútur.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur ítrekað skorað á Sigmund Davíð að koma austur til fundar og kynna sér aðstæður en hann hefur ekki enn orðið við því. „Þeir hafa verið að fylgjast með og hafa áhyggjur af stöðunni og vilja koma austur fljótlega eftir að þingi lýkur," sagði Kristján um fundinn.

„Sigmundur Davíð sagði sjávarútvegsráðherra hafa verið í samband við menn hjá Vísi. Við vorum sammála um að besti kosturinn væri ef Vísir fengist til að halda úti einhverri starfsemi áfram. Byggðastofnun hefur bætt við 400 tonna byggðakvóta en betur má ef duga skal.

Ég sagði honum á móti frá áhyggjum okkar íbúanna. Að þetta væri blóðtaka, eiginlega eins verið væri að slíta úr okkur hjartað. Við höfum kallað á hjálp en ekki fengið nein viðbrögð eða svör."

Íbúarnir skora á ríkisstjórnina og Alþingi að vinna í anda laga um stjórn fiskveiða þar sem segir að markmið laganna sé að treysta atvinnu og byggð í landinu. Íbúarnir vilja að byggð á Djúpavogi verði „tryggð og treyst til framtíðar."

Sem kunnugt er hyggst Vísir hætta fiskvinnslu á staðnum og flytja til Grindavíkur. Þar hafa starfað 50 manns en gert er ráð fyrir að þeim fækki um helming. Vinna verður áfram við þjónustu við Fiskeldi Austfjarða. Um þrjátíu manna hópur þáði í gær boð Vísis um að fara til Grindavíkur og kynna sér aðstæður.

Kristján sagði fundinn með forsætisráðherra hafa verið „á jákvæðu nótunum. Tilfinningin eftir hann er menn vilji reyna að hjálpa okkur, hver sem reyndin verður."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar