Dæmdur fyrir að hóta lögreglumönnum: „Djöfull skal ég fokking drepa ykkur"

logreglanHéraðsdómur Austurlands dæmdi nýverið karlmann á þrítugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrri að hafa í hótunum við lögreglumenn við skyldustörf. Hann var hins vegar sýknaður af því að hafa reynt að kýla og sparka í þá.

Atvikið átti sér stað við Valaskjálf á menntaskólaballi í desember 2012. Lögreglumennirnir höfðu afskipti af manninum sem var nokkuð æstur og rauk inn í anddyri hússins með hnefann á lofti.

Annar lögreglumannanna lagði hönd á öxl hans og sagði honum að vera rólegur, lögreglan væri mætt. Maðurinn snéri sér við og reyndi að kýla lögreglumanninn.

Af framburði vitna taldi dómurinn sannað að maðurinn hefði reynt að slá til lögreglunnar en ekki væri víst að honum væri ljóst í hraðri atburðarás að þar hefði lögreglumaður verið á ferð. Dómurinn taldi því ekki að um brot gegn valdstjórninni hefði verið að ræða heldur tilraun til líkamsárásar.

Lögreglumennirnir snéru manninn niður, handjárnuðu og leiddu á braut. Utan við húsið var stoppað til að lagfæra handjárnin á manninum og á þá maðurinn að hafa reynt að sparka í aðstoðarlögreglumanninn.

Ekki var lagt fram áverkavottorð og ekkert vitnanna, ekki einu sinni lögreglumaðurinn, sá þegar maðurinn átti að hafa sparkað í félaga hans.

Fyrir dómi var hins vegar lögð fram upptaka úr eftirlitskerfi lögreglubílsins þar sem maðurinn, sem var ekki mundi eftir hinum meintu árásum vegna ölvunar, kallaði lögreglumennina ýmsum illum nöfnum.

„Já mér er skítsama um ykkur [...] djöfull eruð þið fokking rottur [...] þú ert skíthræddur við mig [...] djöfull skal ég fokking drepa ykkur"

Hann baðst þó fljótt afsökunar á orðum sínum: „Æi strákar þetta er ekkert að marka, sorry" og róaðist eftir að á lögreglustöðina kom.

Afsökunin var talin manninum til refsimildunar. Hann hefur áður hlotið dóm fyrir líkamsárás en hélt á skilorðið. Hæfileg refsing var því talin 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár. Honum var einnig gert að greiða 2/3 málskostnaðar, rúmar 200.000 krónur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar