Nógu mikið „hugs" fyrir minn smekk: Höfum ekki hugmynd um hver reikningurinn verður
Fulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar saka meirihlutann um að draga lappirnar í jöfnun gjaldskrár fyrir almenningssamgöngur í sveitarfélaginu. Bæjarfulltrúar meirihlutans segja aftur á móti að reikna þurfi út afleiðingar og kostnað áður en það verði gert.Bæjarfulltrúar Fjarðalistans lögðu fram tillögu um að eitt og sama fargjaldið verði með almenningssamgöngum innan Fjarðabyggðar óháð því hvert er verið að fara. Í dag er kerfið svæðaskipt og þeir sem ferðast lengst borga mest.
Tillagan er í samræmi við málflutning Fjarðalistans á kjörtímabilinu sem ávallt hefur barist fyrir því að sveitarfélagið sé eitt gjaldsvæði. Að þessu sinni var hún lögð fram í ljósi góðrar afkomu sveitarfélagsins og þess að framsóknarmenn lýstu yfir vilja sínum til að jafna gjaldið á næsta kjörtímabili í kosningastefnuskrá sinni.
„Við höfum mætt takmörkuðum skilningi en teljum nú að kominn sé pólitískur meirihluti fyrir þessari tillögu," sagði Esther Ösp Gunnarsdóttir sem mælti fyrir tillögunni þar sem gengið var út frá því að ný gjaldskrá tæki gildi strax í haust.
Höfum ekki hugmynd um hver reikningurinn verður
Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs og oddviti sjálfstæðismanna, taldi það engan vegin nægan tíma til undirbúnings. Hann hvatti menn til að skoða málið við næstu fjárhagsáætlunargerð og nota sumarið til að afla frekari gagna. Nýlega er byrjað að nota rafrænt kerfi til að halda utan um notkunina.
„Við hljótum að vera sammála um að við viljum sjá einhverja útreikninga. Við höfum ekki hugmynd um hver reikningurinn verður sem kemur til bæjarsjóðs."
Hann benti á að yfir 90% notenda kerfisins nytu þegar niðurgreiðslu. Þá þyrfti að kanna afstöðu meðal stórnotenda sem væru „hryggjarstykkið" í kerfinu og þeir myndu vart „sætta sig við tvöfalt kerfi."
Höfum aldrei séð beinharðar tölur
Esther og Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, gagnrýndu á móti að kostnaðartölurnar lægju ekki fyrir. „Við höfum aldrei fengið beinharðar tölur um kostnaðinn við eitt gjaldsvæði. Við höfum séð tölur um að þetta sé sáralítill hópur sem þurfi að jafna. Því ættum við að hafa efni á því."
Hann lýsti þeirri skoðun sinni að farþegum myndi snarfjölga ef sveitarfélagið yrði gert að einu gjaldsvæði.
„Þetta er pólitísk ákvörðun og við eigum að taka hana hér í bæjarstjórn. Ég hefði viljað sjá frekari tölur en ef tillagan er samþykkt þá er hún að minnsta kosti komin í stefnu fyrir haustið. Það er búið að þæfa málið nógu í nefndum."
Esther hélt áfram á sömu braut. „Þótt ekki sé ljóst hvað þetta kosti þá eru menn með það á hreinu að ekki sé til peningur fyrir því.
Við erum búin að vera að hugsa þetta í tvö ár. Það er alveg nógu mikið „hugs" fyrir minn smekk. Ég myndi vilja sjá að menn fylgdu málinu eftir ef mönnum er alvara með orðum sínum.
Við erum alltaf að krefjast þess af ríkinu að það jafni út þetta og hitt en svo ætlum við ekki að vinna þessa vinnu heima hjá okkur. Það er ekki mjög trúverðugt."
Kátur með tillöguna
Guðmundur Þorgrímsson, Framsóknarflokki, gagnrýndi Fjarðalistann fyrir að koma með tillögu sem þessa inn á fund og ætlast til að hún væri afgreidd strax. Hann lýsti þó þeirri skoðun sinni að „leiðrétta verði með einhverjum hætti þessum litla hópi að hann sé að borga dýrara fargjald.
Ég er afar kátur með að þessi tillaga sé komin fram og vonandi leiðir hún það af sér að algjör jöfnuður verður á fargjöldum, hvaðan sem menn eru að koma og hvert sem þeir eru að fara."
Erum í þeirri skemmtilegu stöðu að geta rifist um í hvað við viljum eyða peningunum
Jens sagðist ánægður með að tekist hefði að koma kerfinu á. „Þetta er nýtt kerfi sem við í núverandi meirihluta komum á á þessu kjörtímabili. Það var margoft búið að reyna þetta á síðasta kjörtímabili en þær tilraunir runnu út í sandinn.
Við höfum séð erfiða fæðingu í öðrum landshlutum. Almenningssamgöngukerfið setti Eyþing nánast á hausinn. Við verðum að stíga varlega til jarðar og ekki fara of geyst.
Eftir góðan rekstur erum við í þeirri skemmtilegu stöðu að við getum farið að rífast um í hvað við viljum setja peningana en ekki velta fyrir okkur hvar eigi að skera niður. Þetta er ánægjuleg umræða en ég er viss um að við erum að tala um tugi milljóna."
Valdimar O. Hermannson, Sjálfstæðisflokki, sagði tillöguna óábyrga. „Þetta gæti farið í upplausn. Það eru í gangi málaferli gegn öðrum landshlutum. Það að ætla að nota góða niðurstöðu til að slá sig til riddara finnst mér algjörlega óábyrgt, svo ekki sé meira sagt."
Að tillögu forseta bæjarstjórnar var samþykkt að vísa tillögunni til umræðu á næsta fundi bæjarráðs. Fulltrúar fjarðalistans sátu hjá við þá samþykkt.