Tugir keyrðu framhjá umferðarslysi: Hefði getað verið alvarlegra

ingi ragnarssonTugir ferðalanga keyrðu framhjá Inga Ragnarssyni á meðan hann beið eftir sjúkrabíl eftir að hann lenti út af veginum yfir Fagradal í gærmorgun.

„Þeir hafa væntanlega séð mig í framsætinu á hreyfingu og ég var á breyttum jeppa þannig þetta kann að hafa litið út eins og ég hafi keyrt beint út af."

Þetta segir Ingi sem nú dvelur á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað með brákaðan hryggjarlið. Ingi varð fyrir því óhappi að lenda út af veginum yfir Fagradal um klukkan átta í gærmorgun.

Facebook-færsla hans hefur gengið viða en þar segir hann: „Þakka öllum þeim (ca 20 til 30 bílar) sem keyrðu fram hjá í morgun meðan ég beið eftir sjúkrabílnum og spáðu ekki í því hvort það væri eitthvað athugunarvert við að það væri bíll útaf veginum."

Í samtali við Austurfrétt segist hann hafa beðið í um fimmtán mínútur þar til lögreglan kom á slysstað. Á meðan hafi verið „talsferð umferð" en enginn stöðvað til að athuga ástand hans.

„Þetta hefði getað verið eitthvað alvarlegra. Menn eiga að kíkja eftir svona."

Ingi segir bílinn hafa lent illa, sennilega í holu, þegar hann fór út af veginum. Við það hafi hann fengið mikið högg. Hann hringdi sjálfur eftir hjálp en gat litla björg sér veitt að öðru leyti.

„Þetta var hálf fáránlegt. Ég gat ekkert hreyft mig. Ég er samt feginn að þetta er ekki eins alvarlegt og ég hélt í fyrstu."

Mynd: Úr einkasafni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar