„Nú er röðin komin að Djúpavogi" - Myndband
Djúpavogshreppur, með stuðningi AFLs starfsgreinafélags, hefur látið gera myndband þar sem kallað er eftir viðbrögðum stjórnvalda við fyrirhuguðum brottflutningi á bolfiskvinnslu Vísis frá staðnum.„Tilgangurinn var að vekja stjórnvöld og almenning til umhugsunar um þann vanda sem við, líkt og önnur smærri byggðarlög stöndum frammi fyrir," segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.
Myndbandið var tekið í síðustu viku af Arctic Project, framleiðslufélagi Skúla Andréssonar og Sigurðar Más Davíðssonar frá Djúpavogi. „Við höfum ekkert fengið nema jákvæð viðbrögð við því."
Í myndbandinu er rakinn þróun fiskvinnslu á Austurlandi undanfarin ár, hvernig bolfiskvinnslu hefur verið hætt og kvóti horfið úr sumum byggðarlögum. „Nú er röðin komin að Djúpavogi," segir í texta myndbandsins.
Áhrifin eru sett í samhengi við Reykjavíkursvæðið og bent á að heildaráhrifin af brotthvarfi Vísis á efnahag Austurlands séu allt að 600 milljónir króna.
Ítrekað er ákall eftir viðbrögðum stjórnvalda og spurt hvernig markmiði fiskveiðistjórnunarkerfisins um eflingu byggðar sé fylgt eftir.
„Við höfum valið þá leið að benda á vankanta kerfisins og ábyrgð stjórnvalda fremur en gagnrýna fyrirtækið sem slíkt. Það eru þeir sem skapa umhverfið sem bera fyrst og fremst ábyrgðina," segir Gauti.
Fyrir helgi var forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, afhent áskorun sem 150 íbúar Djúpavogs skrifuðu undir. Við það tækifæri gaf Sigmundur Davíð það til kynna að hann myndi þekkjast boð um að koma austur til að kynna sér aðstæður eftir þinglok.
Þinginu lauk fyrir helgi en Gauti segir enga dagsetningu komna enn á austurför ráðherrans. „Við eigum von á að hann hafi frá einhverju að segja."
Í síðustu viku gaf Byggðastofnun út 400 tonna viðbótarkvóta til Djúpavogshrepps á næsta fiskveiðiári. Gauti segir að sá kvóti sé hvergi nærri nóg.
„Hér hafa verið unnin 4000 tonn en við fáum 400. Menn geta reiknað það sjálfir að hann dugar hvergi til að koma á móti því sem við erum að missa frá okkur."
Gauti verður gestur Kastljóss á RÚV í kvöld þar sem hann ræðir stöðuna á Djúpavogi.