Einar Már: Alltof lítið áunnist í því að sameina sveitarfélögin

einar mar sigurdsson mai14Einar Már Sigurðsson, sem skipar fjórða sætið á lista Fjarðalistans í Fjarðabyggð, segir það slæmt ef íbúar telja sig hafa orðið utanveltu eftir sameiningu sveitarfélaga. Rætt var um forgangsröðun á milli byggðakjarnanna og íbúalýðræði á framboðsfundi á Stöðvarfirði í gærkvöldi.

„Ef mörgum líður illa með sameininguna og finnst þeim utangarðs þá er það ekki nógu gott. Mér virðist sem alltof lítið hafi áunnist í því að sameina sveitarfélögin," sagði Einar Már í framsöguræðu sinni í gærkvöldi.

Einar Már, sem er fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar og nú skólastjóri á Fáskrúðsfirði, sagði frá því að ræðan væri hans fyrsta pólitíska ræða í fimm ár.

„Þeir segjast vilja hlusta á ykkur og jafnvel vera tilbúnir að fara eftir því sem þið segið en það virðist svolítið hafa gleymst síðastliðin fjögur ár að hlusta á fólkið. Það er eitt af því sem réði úrslitum um að ég fór aftur af stað."

Fjarðalistinn, sem verið hefur í minnihluta á kjörtímabilinu, lagði í gærkvöldi áherslu á aukið vald til íbúasamtaka þéttbýliskjarnanna, meðal annars með að eyrnamerkja þeim fjármagn og leyfa þeim að forgangsraða verkefnum á hverjum stað.

Heimamenn gagnrýndu forgangsröðun á vegum sveitarfélagsins og svo virtist sem Stöðvarfjörður væri yfirleitt síðastur í goggunarröðinni. Meðal annars var nefnt að framkvæmdum við smábátahöfnina hefði verið frestað, strætóskýli hefðu verið sett síðast upp þar, uppbygging á tjaldsvæðinu væri loks að hefjast núna og komið inn á ástand gamla félagsheimilisins sem hýsir félagsmiðstöð staðarins en það er bágborið.

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðismanna, hafnaði því að meirihlutinn hefði hvorki hlustað á né sinn Stöðfirðingum og nefndi breytingu á úthlutun byggðakvóta, stuðning við Sköpunarmiðstöðina og uppbyggingu fiskvinnslu á staðnum.

„Tókum við vondu búi"

Talsmenn meirihluta B- og D-lista fóru yfir árangur í skuldamálum á kjörtímabilinu. „Fjögur hundruð milljónir sem áður fóru í vexti geta nú farið í rekstur," sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks.

„Við tókum við vondu búi en getum nú látið íbúana njóta góðs af aðhaldinu," sagði Dýrunn Skaftadóttir en frummælendur Sjálfstæðisflokksins töluðu um uppbyggingu útivistarsvæða.

Frambjóðendur virtust þó á einu máli um að ástand félagsheimilisins „væri til skammar." „Við höfum aðeins einungis gert það allra nauðsynlegasta í viðhaldi og umhverfismálum út af aðhaldi í skuldamálum," sagði Eiður Ragnarsson, annar maður B-lista.

Frambjóðendur meirihlutans útskýrðu einnig að hafnarframkvæmdir hefðu verið látnar bíða út af miklum framkvæmdum í Norðfjarðarhöfn auk þess sem ákveðið hefði verið að fara í stærri framkvæmdir á Stöðvarfirði en upphaflega var áætlað.

Frambjóðendur töluðu einnig um atvinnutækifæri á Stöðvarfirði, svo sem í tengslum við ferðamennsku og að fá þjóðveg 1 færðan niður á firði og yfir Fagradal en skilyrði þess væri endurbættur eða nýr Suðurfjarðavegur.

Elvar Jónsson, Fjarðalistanum, sagði að fá þyrfti verkefni frá ríkinu „meðal annars hluta af starfsemi Vegagerðarinnar."

„Snýst ekki um peninga heldur jafnrétti"

Harðast var þó tekist á um gjaldskrá almenningssamgangna en Björgvin Valur Guðmundsson, íbúi á Stöðvarfirði, spurði hvers vegna meirihlutanum væri „svona illa" við Stöðfirðinga að láta þá borga meira í almenningssamgöngur en aðra íbúa sveitarfélagsins.

„Okkur er ekki illa við íbúa Stöðvarfjarðar," svaraði Jens Garðar. Hann sagði almenningssamgöngurnar ekki einkamál Fjarðabyggðar heldur væru þær hluti af kerfi Strætisvagna Austurlands sem væri svæðisskipt. Fé til rekstursins komi ekki bara úr bæjarsjóði heldur einnig frá öðrum sveitarfélögum og Alcoa Fjarðaáli.

Hart hefur verið tekist á um málið innan bæjarstjórnar síðustu misseri. Jens Garðar sagði að menn hefði í vetur verið búnir að samþykkja að taka gjaldskrána til skoðunar í haust við gerð fjárhagsáætlunar „en þá vöknuðu sumur upp við að senn líður að kosningum og eitthvað þarf að tala um."

„Þetta mál snýst ekki um peninga heldur jafnrétti. Það er ekki misskilningur að tala um að efla Stöðvarfjörð á tyllidögum en skella svo á hærra gjaldi. Það er erfitt að stuðla að jafnrétti ef mönnum er mismunað í almenningssamgöngum. Við getum ekki búið að mönnum sé mismunað eftir búsetu í gjaldtöku." svaraði Elvar.

Fulltrúar Fjarðalistans hafa talað fyrir einu gjaldi innan Fjarðabyggðar á kjörtímabilinu. Að undanförnu hafa framsóknarmenn talað fyrir því að Fjarðabyggð verði eitt gjaldsvæði í framtíðinni. „Við viljum eina gjaldskrá en því miður náðist sú samstaða ekki á þessu kjörtímabili," voru orð Pálínu Margeirsdóttur af B-lista í framsöguræðu hennar.

„Munurinn á okkur og framsókn er að við erum búin að berjast fyrir þessu en þau eru að lofa þessu," hélt Elvar áfram.

Jón Björn Hákonarson, oddviti framsóknarmanna hafnaði því að ein gjaldskrá væri „ljós sem framsóknarmenn væru að sjá núna." Hann ítrekaði að kerfið væri heildstætt á Austurlandi og skoða þyrfti breytingar á kerfinu og kostnað við þær vandlega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar