Séra Þorgeir skipaður sóknarprestur á Egilsstöðum
Biskup Íslands hefur ákveðið að skipa séra Þorgeir Arason í embætti sóknarprests Egilsstaðaprestakalls og Ólöfu Margréti Snorradóttur guðfræðing í embætti prests í prestakallinu.Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni í dag. Þorgeir og Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli, sóttu um sóknarprestsstöðuna.
Þorgeir, sem er héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi, naut töluverðs stuðnings sóknarbarna en 625 undirskriftir söfnuðust til stuðnings honum.
Níu manna valnefnd prestakallsins fjallaði um valið undir formennsku prófasts og með ráðgjöf lögfræðings. Valnefndin lauk störfum í vikunni og skilaði niðurstöðum sínum til biskups. Henni var ekki heimilt að líta til undirskriftanna.
Ólöf Margrét var einn fjögurra umsækjenda um prestsstöðuna. Hún lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 2010 og embættisprófi í fyrra.
Hún hefur starfað hjá Fella- og Hólakirkju og meðal annars annast kirkjustarf aldraðra.