Lilja talsmaður Endurreisnarinnar í fjarveru Áskels
Lilja Óladóttir, bóndi í Merki á Jökuldal, verður talsmaður Endurreisnarinnar á Fljótsdalshéraði næstu daga en hún skipar annað sæti listans á meðan Áskell Einarsson, oddviti listans, gengst undir læknismeðferð.Þetta kemur fram í tilkynningu sem framboðið sendi frá sér í morgun. Þar segir að Áskell muni hverfa til „brýnni verkefna næstu daga og leggjast inn á sjúkrahús í framhaldsmeðferð. Hann greindist með lungnakrabbamein í vor og á í tvísýnni baráttu við sjúkdóminn."
Á meðan verður Lilja Óladóttir talsmaður Endurreisnarinnar og taka þátt í kosningaviðburðum fyrir hennar hönd. Þær upplýsingar fengust hjá Endurreisninni að fyrirkomulagið yrði við lýði fram í miðja næstu viku en von væri á Áskeli aftur í lokasprettinn.
Þetta þýðir að Lilja verður frummælandi listans á framboðsfundi í Egilsstaðaskóla annað kvöld. Í tilkynningunni er haft eftir henni að hún sé óhrædd við baráttuna og hafi hug á að setjast í bæjarstjórn.
„Ég hef vitað að þessi staða gæti komið upp. Við erum með mörg góð mál á stefnuskránni sem við ætlum að berjast fyrir og ég er viss um að ég og framboðið eigum hljómgrunn í sveitarfélaginu.
Ég og meðframbjóðendur finnum fyrir auknum stuðningi og það er aldrei að vita nema við getum látið draum Áskels rætast um að eiga talsmenn íbúalýðræðis í bæjarstjórn. Meðbyr undanfarna daga styrkir okkur í þeirri trú." segir Lilja.
Áskell Einarsson. Mynd: SigAð