Bíðum eftir úrslitum kosninganna með að mynda nýjan meirihluta

frambodsfundur nesk 0034 webFrambjóðendur í Fjarðabyggð segjast ekki vera búnir að mynda nýjan meirihluta. Slíkt sé ekki hægt að gera fyrr en úrslit kosninganna liggja fyrir.

Frambjóðendur voru spurðir út í hvort nýr meirihluti væri að myndast á framboðsfundi í Neskaupstað á föstudagskvöld. Spurningin var meðal annars tilkominn af hugmyndum sjálfstæðismanna um að setja umferð um Nesgötu í stokk.

„Það er kominn stokkur í meirihlutann. Ég veit ekki hvort nýr meirihluti Fjarðalista og Sjálfstæðisflokks sé að fæðast. Mér er ekki kunnugt um það. Við viljum alla veganna sjá úrslit kosninganna fyrst," sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti framsóknarmanna.

„Við gætum myndað meirihluta um Nesgötuna með Sjálfstæðisflokki en um almenningssamgöngurnar með framsóknarmönnum. Til að komast í meirihluta þurfum við styrk eftir kosningar.

Meirihlutinn verður ekki myndaður hér í kvöld en málaefnastaðan hefur færst til eftir að kosningabaráttan hófst," sagði Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans.

Jens Garðar Helgason tók í sama streng en þakkaði Einari Má Sigurðssyni, Fjarðalistanum, fyrir að sýna núverandi meirihlutaflokkum áhuga.

„Einar er búinn að bera víurnar í okkur báða. Hann er áhugasamur um stefnu okkar, bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Hann notar tímann í að útlista stefnuskrár okkar sem er mjög gott því það er auka ræðutími fyrir okkur.

Einar Már hefur beðið eftir að við föllum á kné fyrir honum en það gerist ekki á þessum fundum. Það er bara eftir fundur á Mjóafirði og þangað fer hann ekki, bara oddvitarnir."

Þarf stóran sal fyrir öldungaráðið

Hugmyndir um öldungaráð, sem Einar Már hefur talað mjög fyrir, urðu einnig til umræðu. „Ég hef ekki betur heyrt en Einar Már sé farinn að rifja upp gamla tíma með að útbýta pólitískum bitlingum. Hann er búinn að vera að raða í embættin," sagði Jens Garðar.

Jón Björn bætti því við að hann væri að „leita að sal sem verður nógu stór til að rúma ráðið."

Einar Már, sem ekki hefur tekið þátt í stjórnmálum síðan hann hætti á þingi árið 2009, sagði árin fimm hafa „nýst vel í að safna krafti og áhuga. Ég ætla ekki að hætta 31. maí. Ég ætla mér að sitja í næstu bæjarstjórn."

Hinum megin á aldursskalanum var Sigurbergur Ingi Jóhannsson einn af frummælendum Sjálfstæðisflokksins. „Það er ljóst að ungt fólk hér í Fjarðabyggð hefur skoðun því meðlimir úr ungmennaráði er á öllum framboðslistum," sagði Sigurbergur sem er formaður ráðsins.

Sigurbergur, sem er átján ára, sagði í ræðu sinni frá því hvers vegna hann hefði valið Sjálfstæðisflokkinn. Það þótti samt ekki sjálfsagt. „Ég var spurður að því hvort ég sem fæddur og uppalinn Norðfirðingur væri ekki örugglega kommúnisti!"

Áherslan á fundinum í Neskaupstað var fremur á skipulagsmál heldur en velferðarmál, ólíkt fundinum á Eskifirði daginn á undan. Í fyrirspurnum svaraði Eydís Ásbjörnsdóttir, Fjarðalistanum, að bæta þyrfti við stöðugildum á fjölskyldusviði vegna aukins álags.

Það kallaði á svar frá Valdimar O. Hermannssyni, Sjálfstæðisflokki. „Velferðar-, skóla- og félagsþjónustumál eru ekki einkamál sumra framboða"

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar