Andrés Skúla: Viljum frekar 400 tonn en ekki neitt

andres skulason mai14Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, segir heimamenn freka þiggja 400 tonna frá Byggðastofnun frekar en ekki neitt. Meira þurfi samt að koma til þannig að fiskvinnsla á staðnum verði tryggð.

Þetta kom fram í máli Andrésar á íbúafundi með sjávarútvegsráðherra í gær. Sveitarfélagið fékk í síðustu viku úthlutað 400 tonna viðbótarbyggðakvóta fyrir næsta fiskveiðiár.

Sveitarstjórnin hefur gagnrýnt úthlutunina og lýst því að hún dugi ekki til þegar 4000 tonn séu á leið frá byggðarlaginu. „Við viljum frekar 400 tonn en ekki neitt en þau duga þó ekki.

Við höfum fengið að heyra að við séum galin að fara fram á fá það sem við höfðum. Þá komi öll önnur sveitarfélögin sem misst hafi kvóta á eftir og slíkar tölur ráði menn ekki við.

Við teljum að við getum ráðið við að taka við minni aflaheimildum. Tvö þúsund tonn gætu verið góður grunnur að vinnslu hér til að halda uppi 30-40 störfum."

Áætlanir Byggðastofnanna gera ráð fyrir slíkri vinnslu en að þau 1600 tonn sem upp á vantar komi frá öðrum aðilum.

Andrés sagðist telja að heimildirnar væru til hjá ríkinu enda væri ríkið þriðji stærsti kvótaeigandi landsins. Byggðakvóta þyrfti að nota á markvissari hátt en í dag en „ekki moka undir þá sem hafa fyrir. Ég sagði við forsætisráðherra að sveitarfélag á borð við Hornafjörð væri ekki að blóðrenna en þangað fer samt 300 tonna byggðakvóti."

Andrés sagðist skynja aukinn vilja hjá stjórnvöldum til að sameina kvótapotta til að tryggja byggð um allt land. Þótt ekki kæmi jafn mikill kvóti og vonast hefði verið eftir ætlaði sveitarfélagið áfram að vinna með stjórnvöldum.

„Það er ekki í boði hjá þessu samfélagi að gefast upp. Við munum halda baráttunni áfram. Þótt við séum ekki sammála um einstaka hluti ætlum við að halda áfram að vinna með Byggðastofnun og stjórnvöld.

Það er augljóslega verið að vinna í málunum á mörg vígstöðvum og við væntum þess að það skýrist betur í vikunni hvað er framundan.

Það er ekki eins og þetta sé að gerast í fyrsta sinn. Útgerðirnar spila eftir leikreglunum sem stjórnvöld útbúa og það er þeirra að breyta leikreglunum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar