Mikil þörf á að endurskoða stórkarlalegt miðbæjarskipulag: Viljum ekki kollsteypu eins og hinir

frambodsfundur egs 0016 webFlestir þeirra lista sem bjóða fram á Fljótsdalshéraði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor telja nauðsynlegt að endurskoða skipulag miðbæjarins á Egilsstöðum. Sjálfstæðisflokkurinn vill þó að haldið verði áfram eftir núverandi skipulagi.

„Skipulagið er stórkarlalegt, það hangir á stórum framkvæmdum. Það er gert ráð fyrir að rífa töluvert af byggingum og færa og hækka veginn," sagði Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins.

„Við teljum mikla þörf á að taka það til endurskoðunar og skala það niður þannig að hægt sé að fara í aðgerðir samkvæmt því hægt og rólega."

Skoða þarf allan pakkann

Línan var hin sama hjá flestum framboðum. „Við þurfum að halda miðbænum hreinum og snyrtilegum þannig fólk fái á tilfinninguna á að það sé að koma í góðan bæ," sagði Erlingur Hjörvar Guðjónsson frá Endurreisninni sem vildi taka skipulagið til endurskoðunar.

Árni Kristinsson, Héraðslistanum, sagði að „skoða þyrfti allan pakkann. Það er ljóst að við þurfum að endurskoða skipulagið en það verður ekki gert nema í samráði við þá sem eru með eða hyggjast vera með rekstur.

Það var gert ráð fyrir færslu vegarins og það er ljóst að sveitarfélagið er ekki að fara að ráðast í hana. Á svæðinu í dag er líka mikið af atvinnuhúsnæði þar sem gert var fyrir öðru."

Fyrirhrunsskipulag sem þarf að aðlaga

Einungis Sjálfstæðisflokkurinn vildi halda í gamla skipulagið. „Við viljum að bærinn verði byggður upp miðað við núverandi skipulag. Við viljum ekki kollsteypu eins og hinir. Við viljum ekki kollvarpa skipulaginu en aðlaga ákveðna þætti þess að þeim sem sækja um lóðir."

Gunnar Jónsson, Á-listanum sagðist ekki „kannast við kollsteypu. Það þarf að fara yfir skipulagið til að geta lokað ákveðnum svæðum. Þetta er fyrirhrunsskipulag sem aðlaga þarf breyttum tíðaranda."

Langtímaverkefni að efla atvinnulífið

Frambjóðendur voru einnig spurðir út í næstu skref í fráveitumálum. Gunnar svaraði því að til að klára kerfið þyrfti um 800 milljónir. Vandinn sé mestur í gamla bænum þar sem aðeins sé einfalt lagnakerfi þannig vatn fari í hreinsivirkin sem hvorki á né þurfi að fara þangað.

Hugmyndir Sjálfstæðismanna um sérstakan atvinnumálafulltrúa voru ræddar. Guðmundur Kröyer sagði það „langtímaverkefni til að efla atvinnulífið."

Stefán Bogi hvatti til þess að frekar yrði notaðar þær leiðir sem til væru fremur en stofna til nýrrar stöðu. Samið hefði verið við Þjónustusamfélagið um að sveitarfélagið legði til fjármagn fyrir hálfri stöðu gegn sambærilegu framlagi frá hinu nýstofnaða félagi. Þá væri atvinnuþróunaraðstoð til staðar hjá Austurbrú.

Ljóst að fara verður í raflínukerfið

Í tenglum við atvinnuuppbyggingu voru frambjóðendur spurðir út í sýn þeirra á afhendingaröryggi raforku í sveitarfélaginu og hvort þeir styddu nýja byggðalínu yfir Sprengisand.

Árni Kristinsson minnti á að bæjarstjórnin hefði samþykkt fleiri en eina áskorun eða ályktanir um aukið öryggi. „Það er ljóst að það verður að fara í raflínukerfið, hvort sem það verður gert með Sprengisandslínu eða styrkingu þeirra lína sem fyrir eru."

Stefán Bogi sagði framsóknarmenn á Fljótsdalshéraði styðja Sprengisandslínu. „Við vitum að raforkuöryggi er ekki í ásættanlegu ástandi. Við vitum að það stendur ekki á Landsneti heldur öðrum sem verða þá að svara fyrir það."

Gunnar Jónsson sagði sitjandi bæjarstjórn vera búna „að berja á" þeim sem tengdust málinu mest. Sprengisandslínan væri nauðsynleg því fjórðungurinn væri „illa staddur. Það er afgerandi að þarna eigi sér stað uppbygging svo hægt sé að bjóða upp á framtíðaratvinnutækifæri."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar