Vopnafjörður eitt best stæða sveitarfélaga landsins: Breiðdalshreppur einna verst statt

vopnafjordur 02052014 0004 webRekstur Vopnafjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fjarðabyggðar, Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs er í lagi og stendur undir skuldbindingum sveitarfélaganna. Breiðdalshreppur er á móti eitt verst stadda sveitarfélag landsins.

Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um fjármál sveitarfélaga sem gefin var út í dag. Farið var yfir ársreikninga hjá 60 af 74 sveitarfélögum landsins sem samanlagt ná til 99% íbúa landsins.

Vopnafjarðarhreppur verður að teljast eitt best stæða sveitarfélag landsins sé horft til samstæðureksturs A og B hluta. Veltufé frá rekstri er um 20% og skuldahlutfallið um 70%.

Vopnafjörður og Djúpavogur falla í fyrsta flokk sem eru sveitarfélög með litlar skuldir sem reksturinn stendur vel undir. Um 80% af sveitarfélögunum í úrtakinu falla í þann flokk.

Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjörður falla í næsta flokk þar sem skuldsetningin er mikil en reksturinn stendur vel undir henni. Veltufé frá rekstri er hvergi hlutfallslega hærra heldur en í Fjarðabyggð, um 25%. Á móti því koma hins vegar miklar skuldir.

Breiðdalshreppur er einn í fjórða flokki þar sem skuldir eru miklar og reksturinn stendur ekki undir þeim.

Í skýrslunni er bent á að varasamt sé að horfa eingöngu til samstæðunnar. Í B-hluta rekstursins eru þau verkefni sem ekki er ætlast til að skatttekjur standi undir, svo sem hitaveigur og hafnarsjóðir. Hömlur eru á hversu mikla sjóði má færa frá B yfir í A-hluta.

A-hlutinn eru lögbundin verkefni sveitarfélaganna sem fjármagna verður með skatttekjum. Sviðsmyndin eystra breytist aðeins ef aðeins er horft á hann.

Breiðdalsvík flyst í flokk 3 þar sem skuldsetning er lítil en reksturinn stendur þó ekki undir þeim. Djúpavogshreppur fellur einnig í þann flokk þar sem skatttekjur virðast vart standa undir lögboðnum rekstri.

Seyðisfjarðarkaupstaður flyst yfir í flokk 1 þar sem A-hlutinn er með litlar skuldir. Vopnafjörður helst þar einnig en kemur verr út vegna umtalsverðra skulda og minna veltufés.

Fljótdalshérað og Fjarðabyggð eru eftir sem áður í flokki 3. Staða Fljótsdalshéraðs er nánast óbreytt en staða Fjarðabyggðar versnar heldur því veltufjárhlutfallið lækkar um ein tíu prósentustig.

Borgarfjarðarhreppur og Fljótsdalshreppur voru ekki teknir með í könnuninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar