„Nú eru flutt seiði á hverjum degi"
Starfsmenn Fiskeldis Austfjarða hafa undanfarnar tvær vikur unnið hörðum höndum að því að flytja seiði í fiskeldið í Berufirði. Gert er ráð fyrir að 600 þúsund seiði bætist í kvíarnar í sumar.„Nú eru flutt seiði á hverjum degi, um 20.000 stykki í hverri ferð og þannig verður það fram í miðjan júní," segir Kristján Ingimarsson, starfsmaður Fiskeldis Austfjarða. Seiðin koma frá eldisstöðinni Ísþor í Þorlákshöfn sem að hluta er í eigu Fiskeldisins og er hvert þeirra um 150-200 grömm að þyngd.
Í þessari lotu koma um 420.000 seiði en von er á 167.000 seiðum síðar í sumar þannig að alls verði 600.000 seiðum sleppt í kvíarnar í sumar. Þá verði metið hvort bætt verði við fleiri seiðum síðar í vor.
„Við erum með um 400.000 fiska fyrir í kvíunum og með þessum seiðum þá verða þeir orðnir milljón," segir Kristján. Fiskeldið tók við rekstri kvíanna sumarið 2012 og ræktar þar regnbogasilung. Tæplega 100 þúsund seiði komu þá en 400.000 seiðum var bætt við í fyrra. Seiðin þurfa að ganga í gegnum tvö sumur áður en þeim er slátrað. Í haust verður byrjað að slátra og vinna fiskinn í fiskvinnslustöð Vísis á Djúpavogi.
Þrír starfsmenn hafa verið hjá Fiskeldinu í vetur en von er á að þeim fari að fjölga upp úr mánaðarmótum.
Frá komu fyrstu seiðanna í vor. Myndir: Magnús Kristjánsson