2,5 milljónir austur til atvinnumála kvenna

Fjögur austfirsk verkefni fengu samanlagt 2,5 milljónir króna þegar félags- og húsnæðismálaráðherra úthlutaði verið styrkjum til atvinnumála kvenna.


Hæsta styrkinn af þessum fjórum fékk RoShamBo á Seyðisfirði, eina milljón króna, í þróunarkostnað á Ró, yfirdýnum úr íslenskri ull.

Arfleifð á Djúpavogi fékk 700 þúsund í markaðssetningu á vörum sínum erlendis. Þá fékk ferðaþjónustufyrirtækið Austurör 400 þúsund til gerðar viðskiptaáætlunar og Kristín Amalía Atladóttir í Hjaltastaðaþinghá sömu upphæð til gerðar viðskiptaáætlunar á framleiðslu efnis fyrir sýndarveruleika.

Alls fengu 33 verkefni styrki upp á samanlagt 32 milljónir króna. Alls bárust 219 umsóknir.

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í eigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun.

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.

Unnt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.