Rán Freysdóttir: Fólk vill ferskt afl í sveitarstjórnarmálum á Djúpavogi
Rán Freysdóttir, leiðtogi Óskalistans á Djúpavogi, segist líta á það sem sigur að hafa komið að tveimur mönnum í sveitarstjórn Djúpavogshrepps. Sex atkvæðum munaði á Framfaralistanum, sem náði meirihluta og Óskalistanum.„Við í Óskalistanum lítum á þetta sem sigur og fögnum tveimur mönnum inn í sveitarstjórn," segir Rán í svari við fyrirspurn Austurfréttar.
Listinn hefur ekki boðið fram áður, frekar en Framfaralistinn sem tefldi þó fram tveimur fulltrúum úr fráfarandi sveitarstjórn.
„Það eru nokkuð skýr skilaboð til okkar að fólk vill sjá nýtt og ferskt afl í sveitarstjórnarmálum á Djúpavogi, enda munaði sáralitlu á listunum.
Þetta er í fyrsta skiptið sem kona leiðir listann í kosningum á Djúpavogi og fögnum við því líka."