Andrés Skúla: Kosningarnar sýna sóknarhug í Djúpavogsbúum
Andrés Skúlason, oddviti Framfaralistans á Djúpavogi, er ánægður með kosningaþátttökuna í sveitarfélaginu þar sem hans framboð vann nauman sigur. Hann telur sveitarstjórnina vel mannaða til að takast á við þau verkefni sem framundan eru.„Fyrir það fyrsta er ég mjög ánægður með þátttöku íbúa í kosningunum sem var 83,3.% sem sýnir áhuga fólks á bæjarmálunum hér," segir Andrés, aðspurður um viðbrögð hans við úrslitum kosninganna á laugardag.
Framfaralistinn fékk sex atkvæðum meira heldur en Óskalistinn. „Í annan stað er ég mjög sáttur við niðurstöðuna úr kosningunum fyrir hönd F listans sem hefur á að skipa mjög góðri og kraftmikilli blöndu af ungu fólki og reynsluríkari einstaklingum og öll erum við sem eitt tilbúin að takast á við þau verkefni sem eru framundan á komandi kjörtímabili.
Þá hlýt ég sömuleiðis að líta á þetta sem mikinn sigur fyrir mig persónulega þar sem ég er að leiða lista til sigurs fjórða kjörtímabilið í röð."
Hann segir hins vegar blöndu listanna í sveitarstjórn skipta mestu máli. „F listinn og Ó listinn hafa bæði á að skipa hæfu og dugmiklu fólki sem eru reiðubúið að taka höndum saman um að vinna að því að gera Djúpavogshrepp að enn betri stað en hann er í dag.
Kosningarnar sýna því að hér er engin uppgjafartónn í fólki, heldur sóknarhugur. Niðurstaða kosningaúrslitana er því að mínu mati sigur fyrir íbúa alls sveitarfélagsins."