Gary Copsey: Þá sáum við brú skipsins standa upp úr sjónum og hugsuðum: „Þetta er mjög hættuleg staða"
Flugmaðurinn Gary Copsey segir það hafa vakið upp blendnar tilfinningar að snúa aftur til Vöðlavíkur í fyrsta sinn tuttugu árum eftir að hann og félagar hans í þyrlusveit bandaríska hersins björguðu sex skipverjum af Goðanum þar. Copsey var aðstoðarflugmaður annarrar þyrlunnar.„Þegar ég var spurður að því hvort ég vildi koma sagði ég þeim bara að láta mig vita hvenær ég ætti að mæta," segir Copsey.
Hann afhjúpaði fyrir viku minnisvarða um það þegar skipverjum af Bergvík og Goðanum var bjargað í Vöðlavík við erfiðar aðstæður sitt hvorum megin við áramótin 1993/94.
„Það vekur með mér blendnar tilfinningar að koma hingað. Mér finnst yndislegt að vera á Íslandi og með Íslendingum. Mér líður hins og heima hjá mér. Hins vegar finn ég fyrir sorg í hjarta því eitt líf tapaðist hér og tveir þeirra sem við björguðum eru ekki lengur á meðal okkar."
Austfirskir björgunarsveitarmenn björguðu fimm manna áhöfn Bergvíkur sem strandaði viku fyrir jól. Þyrlusveit bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli bjargaði hins vegar sex af sjö mönnum í áhöfn björgunarskipsins Goðans þann 10. janúar árið 1994. Stýrimaðurinn Geir Jónsson drukknaði áður en þyrlurnar komu á staðinn.
„Þegar ég lít til baka horfi ég á ferðina í heild sinni, allar okkar ákvarðanir og að við skyldum bjarga sex mannslífum. Þegar við fórum frá Keflavík við vissum ekki hvernig staðan og áttuðum okkur ekki á því hvernig var fyrr en við komum hingað.
Ég var í seinni þyrlunni og Bergvíkin var það fyrsta sem við sáum þegar við komum fyrir fjallshornið. Það var léttir því skipið var alveg uppi á ströndinni.
Þá sjáum við hvar hin þyrlan hangir yfir sjónum. Við köllum hana upp og þeir segja við okkur: „Bláa skipið er ekki það sem við eigum að hugsa um. Við erum yfir skipinu sem sökk," og við segjum. „er það virkilega?" og þeir svara: „já."
Þá sjáum við brúna standa upp úr sjónum. Skipverjarnir voru í mjög hættulegri stöðu og búnir að vera það klukkustundum saman. Fyrsta hugsun okkar var því að ná þeim sem fyrst upp úr sjónum. Við hefðum misst þá ef skipið hefði oltið.
Lendingin á bílastæðinu í Neskaupstað er líka eftirminnileg. Við vorum spurðir hvers vegna við hefðum lent þar en við sáum engan flugvöll á kortunum okkar og við urðum að koma okkur niður því veðrið var afar hættulegt."
Copsey hafði ekki komið til Austfjarða frá hinum örlagaríka degi. „Það er stórkostlegt að sjá þetta.. Ef einhver kæmi hingað í dag myndi hann hugsa með sér að þetta væri fallegasti staður í heimi og spyrja: „Hví myndi einhver vilja fara héðan."
Björgunarafrekið er í miklum metum bæði hér heima og innan bandaríska hersins. „Þetta er það einstaka verk á friðartímum sem flest verðlaun hafa verið veitt fyrir innan hersins. Við munum samt kannski ekki jafn skýrt eftir þessu og þið sem búið hér en þeir sem lesa sögubækurnar þekkja það."
Copsey og Sævar Guðjónsson, sem var meðal björgunarsveitarmanna í landi, sögðu sögu sína við afhjúpun minnisvarðans, sem björgunarsveitirnar Brimrún á Eskifirði og Gerpir í Neskaupstað, létu gera. Lesa má frásagnir þeirra í Austurglugganum sem kom út í dag.