5,6 milljarða hagnaður Síldarvinnslunnar
Síldarvinnslan í Neskaupstað skilaði 5,6 milljarða króna hagnaði á síðasta ári. Stjórn félagsins var endurkjörin á aðalfundi þess sem haldinn var í gær. Hluthafar fá tvo milljarða króna greidda í arð.Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var út eftir fundinn. Rekstrartekjur voru 23,6 milljarðar en rekstrargjöld 16,2 milljarðar. Hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir var því 7,4 milljarðar króna.
Í tilkynningunni kemur fram að Síldarvinnslan hafi greitt 2,8 milljarða í opinber gjöld í fyrra. Greiddur tekjuskattur á árinu var 1350 milljónir króna. Veiðileyfagjöld námu 940 milljónum á síðasta fiskveiðiári og önnur opinber gjöld 520 milljónum
„Útgerð félagsins gekk vel á árinu," segir þar. Afli bolfiskskipa samstæðunnar var 15.500 tonn og aflaverðmæti 3.910 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 128 þúsund tonn og aflaverðmæti 4.675 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa var 8.600 milljónir króna og aflamagn 143.000 tonn á árinu.
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013. Framleidd voru 41 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 56 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 11.554 milljónir króna.
Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 41.000 tonn. Þar vega loðnuafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks makrílafurðir. Verðmæti framleiðslunnar var 6.880 milljónir króna.
Um frystigeymslurnar fóru 85 þúsund tonn af afurðum á árinu.
Samtals framleiðsla á afurðum nam 101.000 tonnum á árinu 2013 að verðmæti tæplega 20 milljarðar króna.
Hjá samstæðunni starfa um 300 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins námu 3.320 milljónum króna á árinu 2013.
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2013 voru bókfærðar á 45,3 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 14,5 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,9 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 24,4 milljarðar króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 54%.
Stærstu fjárfestingarnar fólust í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað sem lauk á árinu. Skipt var á skipum þegar Beitir var seldur til Noregs og nýr Beitir keyptur. Haldið var áfram á braut uppbyggingar í fiskiðjuveri félagsins.
Stjórn félagsins var endurkjörin í henni sitja: Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir, Freysteinn Bjarnason, Ingi Jóhann Guðmundsson og Þorsteinn Már Baldvinsson.