Héraðslisti, Sjálfstæðisflokkur og Á-listi byrja á að ræða saman

x14 heradslistiHéraðslisti, Sjálfstæðisflokkur og Á-listi ætla að byrja að ræða saman um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Ekki virðist ætla að ganga að koma saman fjögurra flokka meirihluta.

Oddvitar allra framboðanna fjögurra sem komu að mönnum í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs funduðu í gærkvöldi um mögulegt samstarf þeirra allra. Þær viðræður hafa skilað þeirri niðurstöðu að möguleikinn sé ekki raunhæfur.

„Menn telja að hugmyndin sé ágæt en það séu ákveðnar hindranir í henni," segir Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans.

Niðurstaðan eftir fundinn var að Héraðslisti, Sjálfstæðisflokkur og Á-listi, sem eiga tvo bæjarfulltrúa hver, ræði saman um mögulega myndun meirihluta.

„Við sjáum fljótt hvort grundvöllur sé fyrir að ræða áfram saman. Síðan sjáum við hvað gerist í framhaldinu."

Gunnar Jónsson, oddviti Á-lista, segir viðræðurnar „á viðkvæmu stigi." Hans mat er að „ekki sá áhugi fyrir samstarfi allra" og staðfesti að í „morgun hafi verið ákveðið að við myndum setjast niður þrjú.

Aðalmálið er að koma saman starfhæfri bæjarstjórn."

Framsóknarflokkurinn á þrjá menn í bæjarstjórninni. Flokkurinn myndaði meirihluta á síðasta kjörtímabili með Á-lista en upp úr viðræðum þeirra um áframhaldandi samstarf slitnaði á mánudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar